Innlent

Óttast að tollstjóri hafi mismunað fyrirtækjum sem skulda skatta

GRV skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður.
Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður.
Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður segist hafa áhyggjur af því að jafnræðis hafi ekki verið gætt í meðferð tollstjóra á fyrirtækjum sem skulda skatta. Tollstjóri kom fyrir efnahags- og viðskiptanefnd í morgun. Guðlaugur vill að Ríkisendurskoðun skoði málið.

Efnahags og viðskiptanefnd Alþingis fékk í morgun fulltrúa Tollstjóra á sinn fund þar sem skýringar voru veittar á þeim úrræðum sem tollstjóraembættið hefur undanfarin boðið þeim fyrirtækjum sem skulda skatta. Eins og greint hefur verið frá í fréttum Stöðvar 2 hefur Tollstjóri gert fjölda samninga um greiðsluáætlun vegna skattskulda og stöðvun hefur ekki verið beitt frá árinu 2009 vegna tilmæla frá fjármálaráðuneytinu um að beita ekki hörðustu aðgerðum.

Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður, óskaði af þessu tilefni eftir því að málið yrði tekið fyrir á fundi nefndarinnar. Að hans mati er afar brýnt, í þágu gagnsæis í stjórnsýslunni að þessi tilmæli séu vel kynnt fyrr forsvarsmönnum fyrirtækja þannig að allir sitji við sama borð.

„Þetta var mjög upplýsandi fundur, ég hef hinsvegar af því áhyggjur að jafnræðis hafi ekki verið gætt fyrir tímabilið 1. janúar 2010. Það er erfitt að finna út úr því hvort það hafi verið gert. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að fara yfir þessa hluti," segir Guðlaugur.

Guðlaugur segir að miðað við þau viðbrögð sem hann hafi fengið vegna þessa máls, sýnist honum að ekki sé farið eins með á öllum stöðum. Hann hvetur því þá sem ekki telja sig hafa fengið réttláta meðferð að vekja athygli á því, til dæmis hjá umboðsmanni Alþingis. „Á sama hátt held ég að það væri skynsamlegt að ríkisendurskoðun myndi líta á þetta mál. Verðum að geta treyst því að allir sitji jafnir fyrir lögum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×