Innlent

Björgunaraðgerðir fyrir norðan á byrjunarstigi

GRV skrifar
Hér er verið að bjarga kind undan snjó.
Hér er verið að bjarga kind undan snjó.
Sveitarstjóri Skútustaðahrepps segir alla hafa lagst á eitt við að bjarga því sem bjargað verður eftir óveðrið sem reið yfir Norðausturland í síðustu viku. Hún segir aðgerðir þó enn í fullum gangi.

Í daga fara fram íbúafundir í umdæmi sýslumannsins á Húsavík vegna óveðursins síðustu daga. Fyrsti fundur hófst klukkan tíu í Skjólbrekku, síðan verður fundað í Ýdölum klukkan hálftvö og klukkan fimm síðdegis hefst fundur í Stórutjarnarskóla. Fjölmargir fulltrúar hins opinbera og ýmissa félagasamtaka mæta á fundinn og sitja fyrir svörum.

Dagbjört Bjarnadóttir oddviti Skútustaðahrepps segir að íbúar bíði spenntir eftir fundunum og hvaða úrræði verði kynnt þar. „Hvað Bjargráðasjóður getur gert og hvernig menn ætla að bregðast við. Það er stóra verkefni fundarins," segir Dagbjört.

Dagbjört segir að almennt beri menn sig vel eftir áföll undanfarinna daga. „Það hafa allir gert það sem þeir geta held ég. Og björgunarsveitir, RARIK menn og ættingjar og vinir. Það hafa allir verið boðnir og búnir til að gera allt sem í þeirra valdi stendur. EN þegar náttúruöflin taka sig til þá erum við svolítið máttvana," segir Dagbjört.

Dagbjört segir að tjónið sé ekki enn orðið fyllilega ljóst. „Girðingar eru ekki komnar undan snjónum, rollur eru ekki komnar heim, lifandi eða dauðar. Það er svo mikið eftir hjá okkur ennþá.

Í Fréttablaðinu í morgun er greint frá því að hræ af dauðu fé hafi þegar verið urðuð í hólum og giljum í stað þess að flytja þau á sorpbrennslustöð til förgunar. Þetta er á meðal þess sem tekið verður fyrir á fundunum en Dagbjört bendir á að aðgerðum sé hvergi nærri lokið.

„Fólk þarf eiginlega að koma hingað til að sjá hvað við erum stutt komin. Björgunaraðgerðir eru í raun ennþá í gangi. Veður hefur verið það vont að menn fara eins og þeir geta til fjalla en það er enn úrkoma. Slydda inn á milli. Þar sem er ekkert," segir Dagbjört.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×