Innlent

"Þeir gerðu málið verra"

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Hjúkrunarfræðingar segja að of seint sé í rassinn gripið með samkomulagi Guðbjarts Hannessonar, velferðarráðherra, og Björn Zoëga, forstjóra Landspítalans. Skaðinn sé nú þegar skeður.

„Sá skaði er fyrst og fremst trúnaðarbrestur," segir Elsa Friðfinnsdóttir, formaður Félags Hjúkrunarfræðinga. „Og sá trúnaðarbrestur er á milli forstjóra Landspítalans og starfsmanna stofnunarinnar."

Fallið var frá boðaðri launahækkun Björns í dag. Kauphækkunin féll í vægast sagt grýttan jarðveg og var það starfsfólk spítalans sem var hvað háværast í gagnrýni sinni.

Elsa telur að málið eigi eftir að draga dilk á efti sér. Hún bendir á að bæði Guðbjartur og Björn hafi fært rök fyrir launahækkuninni í fjölmiðlum.

Elsa Friðfinnsdóttir, formaður Félags hjúkrunarfræðinga.
„Svo segir Björn í fréttum að hann hafi ætlað að sjá hver viðbrögðin yrðu. Var bara verið að athuga hvort að þetta myndi ganga upp?" spyr Elsa og bætir við: „Þeir gerðu málið í raun verra með þessu."

„Það var aldrei okkar keppikefli að Björn hefði ekki samkeppnishæf laun. En það þarf að hugsa um alla þá sem koma að rekstri spítalans, samkeppnisstöðu þeirra, bæði hér á landi sem og erlendis."

Samt sem áður telur Elsa að málið hafi skapað afar jákvæða og mikilvæga umræðu um starfsemi heilbrigðisþjónustunnar.

„Annars vegar færist nú kastljósið á laun starfsmanna heilbrigðisþjónustunnar og þá í samanburði við ríkisstarfsmenn í annarri þjónustu. Hins vegar hefur þetta mál opnað á þá umræðu um hversu langt hefur í raun verið gengið í niðurskurði á Landspítalanum."


Tengdar fréttir

Hætta við að hækka laun forstjóra Landspítalans

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Björn Zoega, forstjóri Landspítalans, hafa náð samkomulagi um að falla frá launahækkun Björns. Ráðgert var að hún kæmi til framkvæmda um næstu mánaðamót. Fyrirhuguð hækkun nam um 400 þúsund krónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×