Innlent

Íslenskir ofurhugar stefna á Everest ræðaranna

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Leiðin sem kapparnir fara á næsta ári.
Leiðin sem kapparnir fara á næsta ári. mynd/ North Atlantic Row
„Rúmlega fimm þúsund manns hafa klifið Everest - þetta hefur hins vegar enginn gert." Þetta segir Einar Örn Sigurdórsson, róðrarmaður og einn af fjórum Íslendingum sem nú stefna á að róa frá Noregi til Ameríku og slá um leið heimsmet.

Þann 17. maí á næsta ári mun Einar Örn ásamt þeim Eyþóri Eðvarðssyni, Kjartani Jakob Haukssyni og Svani Wilcox leggja upp í róður á sérstökum úthafs róðrabáti yfir Norður-Atlantshaf.

„Ameríka er áfangastaðurinn," segir Einar Örn. „Þessi leið er á norðurslóðum og einmitt það er ástæðan fyrir því að hún hefur aldrei verið farin áður. Hafstraumar á þessum slóðum eru afar óútreiknanlegir og því höfum við takmarkaðan tíma til að gera þetta, tvo mánuði eða svo."

Kjartan Jakob Hauksson ásamt róðrabátnum.mynd/North Atlantic Row
Þá segir Einar Örn að hugað verði að sögunni og tengslunum við þær þjóðir sem fyrstar byggðu Ísland og mótuðu menningararf okkar. Fjórmenningarnir vonast einnig til að slá heimsmet en útsendarar Ocean Rowing Society munu fylgjast með róðrinum fyrir hönd Heimsmetabók Guinness. Þá mun framleiðslufyrirtækið Saga Film vinna heimildarmynd um þrekvirkið.

„Við höfum allir mismunandi ástæður," segir Einar Örn aðspurður um hvað fær menn til að leggjast í slíkt verkefni. „Fyrir mér þetta ævintýri sem mig langar að takast á við. Sumir klífa Everest en mig langar að gera þetta."

Hægt er að nálgast allar upplýsingar um verkefnið á fésbókarsíðu North Atlantic Row.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×