Sport

Serena óstöðvandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Serena Williams er komin í úrslit einliðaleiks kvenna á Opna bandaríska meistaramótinu í tennis eftir öruggan sigur á Söru Errani frá Ítalíu í nótt, 6-1 og 6-2.

Það tók Serenu aðeins 64 mínútur að klára viðureignina og eins og tölurnar bera með sér var sigur hennar aldrei í hættu.

Hún mætir Victoriu Azarenku frá Hvíta-Rússlandi sem hafði betur gegn Maríu Sharapovu í hinni undanúrslitaviðureigninni. Sú viðureign var meira spennandi en Sharapova byrjaði betur og vann fyrsta settið, 6-3.

Azarenka, sem hafði betur gegn Sharapovu í úrslitum Opna ástralska í upphafi ársins, náði að koma til baka og vinna næstu sett 6-2 og 6-4.

Azarenka á þó erfitt verkefni fyrir höndum enda virðist Serena einfaldlega óstöðvandi. Sú bandaríska vann bæði Wimbledon-mótið sem og Ólympíuleikana í sumar en á síðarnefnda mótinu hafði Serena betur gegn Azarenku í undanúrslitum, 6-1 og 6-2.

Reyndar hefur Serena unnið níu af tíu síðustu viðureignum þeirra og þykir hún því langlíklegust til sigurs í úrslitaviðureigninni annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×