Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Selfoss - KR 1-0 | Selfoss úr fallsæti

Leifur Viðarsson á Selfossvelli skrifar
Mynd/Daníel
Selfoss vann í kvöld 1-0 sigur á KR í 18. umferð Pepsi-deildar karla.

Sigur heimamanna var sanngjarn en með honum komst liðið upp fyrir Framara og úr fallsæti.

Leikurinn fór rólega af stað, KR-ingar héldu boltanum betur á miðjunni en Selfyssingar áttu þó líka fína spretti. Bæði lið hefðu í raun getað skorað í fyrri hálfleik en inn vildi boltinn ekki.

Í síðari hálfleik virtust gestirnir ætla að pressa vel framarlega á vellinum og voru líklegri í upphafi síðari hálfleiks. Selfyssingar gáfust þó ekki upp og sprengdu oft upp vörn KR-inga og gerðu sig oft líklega.

Á 62. Mínútu skoraði Jón Daði Böðvarsson eina mark leiksins og það var ekki af síðari endanum. Ólafur Karl Finsen lék í átt að vítateig KR-inga og átti langa sendingu inn á Jón sem lúrði nálægt endalínunni og tók boltann viðstöðulaust innanfótar og setti yfir Hannes Þór Halldórsson í fjærhornið. Hannes kom engum vörnum við og listilega vel gert hjá Jóni Daða sem var valinn maður leiksins.

KR-ingar áttu ekkert svar við leik Selfyssinga í kvöld en komust þó í nokkur skipti í ágætis færi til að jafna leikinn en það voru frekar heimamenn sem voru líklegri að bæta við og Viðar Örn komst í þrígang í ákjósanleg færi en náði ekki að nýta sér þau. Liðsheildin skóp þennan sigur hjá heimamönnum.

Selfoss er nú komið með 18 stig og er eins og stendur í 10. sæti deildarinnar en Framarar færast í fallsæti með 17 stig.

Safamýrarpiltar eiga þó inni leik gegn Fylki annað kvöld og geta þá komist aftur upp fyrir Selfoss í töflunni. Það er óhætt að segja að fallbaráttan er gífurlega spennandi á milli þessara tveggja liða.

Segja má að titilvonir KR-inga séu litlar sem engar eftir tapið.

Útlitið var svart fyrir leikinn í kvöld og FH þarf að misstíga sig svakalega til þess að titilinn hafni ekki í Hafnarfirðinum í ár.

Viðar Örn: Þetta voru bara sanngjörn úrslit.

“Þetta var ótrúlega erfiður leikur en við náðum að skora mark og vorum líklegri að bæta við en þeir að jafna. Þetta voru bara sanngjörn úrslit.”

“Sjálfstraustið er gífurlegt hjá liðinu núna og ef lið nær ekki að skora í tveimur leikjum í röð fara leikmenn að pæla allt of mikið í því. Við vorum í raun að hugsa of mikið um það og sjálfstraustið var alveg niðri, við höfðum heldur ekkert gaman af þessu á meðan við vorum að tapa. En svo tóks okkur loksins að vinna leik og núna er bara allt að ganga upp.”

Logi Ólafsson: Við höfum aldrei glatað trúnni.

“Við erum virkilega ánægðir með frammistöðuna í leiknum, bæði í vörn og sókn. Þýðing leiksins var gríðarleg fyrir okkur, við þurftum ekki bara að standa okkur á móti einu besta liði landsins heldur þurftum við að yfirvinna ákveðna pressu því það er ekki gott að vera í neðri hluta deildarinnar og þurfa að vinna en það gerðum við í dag og getum því ekki verið annað en ánægðir.”

“Þetta var einn af bestu leikjum sumarins hjá okkur og margt gott við hann, það eru ekki bara þessi þrjú stig heldur var spilamennskan frábær hjá liðinu og sjálfstraustið og viljinn sem geislar af liðinu núna vekur mikla ánægju.”

“Varðandi markið þá vona ég að hann hafi ætlað að gera þetta en ef ekki þá er ég bara mjög þakklátur fyrir það að það takast ekki allar fyrirgjafir.”

“Við höfum verið að leika mjög vel í allt sumar þó svo að úrslit leikjanna í sumar hafa ekki alltaf verið góð. Það eru bara tveir leikir, að mínu mati, sem við höfum verið virkilega slakir í. Núna er þetta að skila sér, við erum að skora úr færunum og höldum markinu hreinu í dag sem frábært á móti svona góðu liði. Við höfum heldur aldrei glatað trúnni, það er núna að skila sér í undanförnum leikjum.

"Við höfum spilað góða vörn og góða sókn og núna erum við loksins farnir að sigra leiki. Okkar leikmenn sem komu erlendis frá komu seint og það tekur líka tíma fyrir leikmenn að stilla sig saman.”

Rúnar Kristinsson: Sköpuðum okkur ekki nægilega góð færi.

“Það kom í raun ekkert á óvart. Við vissum alveg hvernig þeir myndu spila en við náðum bara ekki að spila okkar leik og við náðum ekki að nýta okkur þá yfirburði í fyrri hálfleik þegar við vorum mikið með boltann. Sköpuðum okkur ekki nægilega góð færi og töpuðum boltanum oft illa og Selfyssingar nýttu skyndisóknirnar sínar vel og bjuggu sér til ágætis möguleika og voru mikið skeinuhættari en við þó svo að við höfum verið meira með boltann, það bara telur víst ekki.”

“Menn eru ekkert að gefast upp, við viljum berjast áfram og ná að minnsta kosti þessu öðru sæti. En við ætlum að gera atlögu að FH-ingum og setja smá pressu á þá. En við þurfum þá að vinna leikina til þess en við höfum því miður spilað mjög illa undanfarið. Það er allt hægt í fótbotla og við þurfum bara að vinna þessa leiki sem eftir eru".






Fleiri fréttir

Sjá meira


×