Innlent

Hin árlega busavígsla - til hvers?

Cilia Marianne Úlfsdóttir skrifar
Tæplega 4.300 nýnemar settust á skólabekk í framhaldsskólum landsins í vikunni. Busavígslur með mismunandi yfirbragði hafa verið órjúfanlegur hluti inngöngu nema í framhaldsskóla.

Busavígslur í framhaldsskólum eiga sér langa sögu og hafa lengi fallið í misjafnan jarðveg jafnt skjólastjórnenda sem nema. Til dæmis reyndu biskupar í Skálholti á 18. öld að gera slíka siði að brottrekstrarsök úr skóla. Eldri nemar héldu engu að síður vígslusiðum sínum áfram. Á síðustu árum hefur verið meiri pressa á skólastjórnendur að vinna gegn niðurlægingunni sem oft hefur einkennt busainnvígslurnar. Ein ástæða þess er að þeir sem nú hefja nám í framhaldsskólum eru enn börn í skilningi laga. Skólameisturum og rektorum í framhaldsskólum landsins barst þannig árið 2008 bréf frá Margréti Maríu Sigurðardóttur, umboðsmanni barna, þar sem þeir voru beðnir um að gæta hófs í busavígslum. Þetta bréf var sent í kjölfar þess að foreldrar eins busa höfðu sent kvörtun vegna þess hversu langt var gengið í busavígslu. Þrátt fyrir góðan vilja þá ganga busavígslur stundum of langt en skólastjórnendur eru þá yfirleitt fljótir að grípa í taumana. Til dæmis ætlaði höfundur greinarinnar að fylgjast með slíkri innvígslu í Menntaskólann við Hamrahlíð haustið 2011 en þá hafði verið gengið of langt og búið var að ljúka athöfninni þegar höfundur mætti á svæðið um tíuleytið að morgni.

Skemmtun í stað busavígslu

Í kjölfar bréfsins frá umboðsmanni barna gerðu margir skólar grundvallarbreytingar á vígslunum. Til dæmis hafa sumir bannað orðið "böðull" yfir þá sem sjá um vígsluna og kallast þeir í staðinn hópstjórar í Borgarholtsskóla, svo dæmi sé tekið. Annars staðar hefur verið tekið fyrir notkun háværrar tónlistar í busavígslunum. Þar sem lengst hefur verið gengið er búið að taka fyrir allt sem kallast busavígslur og í staðinn farin sú leið að busunum eða nýnemunum er boðið á skemmtun sem snýst öðru fremur um að hrista hópinn saman. Skemmst er að minnast tilkynningar skólameistara Fjölbrautarskóla Suðurlands, Olgu Lísu Garðarsdóttur, nú í vikunni um að busavígsla hefði verið lögð af í skólanum og þess í stað yrði nemendum boðið á tónleika eða einhvers konar skemmtun.

Slíkar breytingar hafa valdið deilum á milli skólastjórnenda og eldri nemenda skólanna. Að mati þeirra er verið að eyðileggja hefð, vígslu sem allir eldri nemendur hafa þurft að ganga í gegnum og eiga því sameiginlega. Með því að "neita" busum um slíka vígslu séu skólastjórnendur í raun að taka frá þeim mikilvæga reynslu sem bindur nemendahópinn saman. Af viðhorfi nemenda má greina mikilvægi busavígslna fyrir það samfélag sem er til staðar innan skólanna. Busavígsla er eitthvað sem allir nýir nemendur þurfi að ganga í gegnum og þegar þeir hafi gengið í gegnum hana þá séu þeir sannarlega orðnir hluti af lokuðum hópi.

Innvígslur raktar til iðnnema

Innvígslur eru ekki nýtt fyrirbæri. Á miðöldum voru iðnnemar látnir ganga í gegnum ýmsar þrautir þegar þeir hófu nám sitt. Enn í dag þekkist að senda nýja starfsmenn í byggingarvinnu í erindisleysu, eins og að skjótast að ná í plankastrekkjara. Þetta er gert til þess að sýna fram á að sá nýi sé á einhvern hátt ekki jafn klár og hinir á vinnustaðnum sem geta svo hlegið að þeim nýja þar sem ekkert áhald er til sem heitir plankastrekkjari. Þannig eru slík verkefni leið til að sýna fram á vankunnáttu þess sem kemur nýr inn á vinnustaðinn. Um leið er þetta leið til sýna honum hvar hann stendur í goggunarröð. Það er líka næsta víst að þegar næsti nýi starfsmaður mætir á svæðið er sá sem síðast var sendur eftir plankastrekkjaranum fljótur að senda þann nýja af stað í sama erindi.

Óskráðar hegðunarreglur nema

Þegar nýir nemendur byrja í nýjum skóla þurfa þeir að læra þær reglur sem þar gilda. Þeim eru kenndar opinberu reglurnar í gegnum kynningar og einnig í lífsleikni sem er hluti af námskrá skólanna. En opinberu reglurnar eru ekki þær einu sem gilda innan skólanna. Þar eru aðrar reglur sem segja til dæmis til um rétta hegðun utan kennslustundanna. Þessar óopinberu reglur læra nýnemar í samskiptum við eldri nemendur.

Á haustin er alltaf spenna í samskiptum innan skólanna, nýju nemendurnir vita ekki hvernig á að hegða sér, að mati eldri nema, og þess vegna eru þeir litnir hornauga í fyrstu. Helsta leið sem framhaldsskólanemendur hafa til að kynna busunum óopinberu reglurnar sem gilda innan skólans eru busavígslurnar.

Þegar fylgst er með busavígslum virðast þær helst einkennast af mikilli niðurlægingu busanna. Oft mega busar bara nota ákveðna innganga og ákveðin salerni. Algengt er að busum sé gert skiljanlegt að þeir séu börnin innan skólanna, busastelpur mega stundum ekki mála sig og eiga að vera með tíkarspena á meðan busastrákunum er bannað að nota hárgel. Í mörgum skólum eru nemendur skírðir eða látnir skríða í gegnum göng sem má túlka sem tákn um einhvers konar endurfæðingu. Einnig eru til dæmi um það að busar hafi verið látnir kyssa svínshöfuð í lok busavígslunnar og með því séu þeir að kveðja sitt dýrslega eðli og í raun sitt fyrra líf, til þess að verða hluti af hópnum. Þegar vígslunni er lokið er yfirleitt litið á busana sem hluta af hópnum og algengur endir á busavígslum er að allir nemendur borði saman. Í Borgarholtsskóla er til dæmis boðið upp á grillaðar pylsur og drykk að lokinni busavígslu og þá eru nýnemarnir orðnir fullgildir Borghyltingar.

Busavígslurnar eru þannig leið eldri nemenda til að sýna þeim yngri hvar þeir standa innan stéttakerfisins í skólunum. Áður en busavígslan fer fram eru þeir neðstir eða jafnvel ekki hluti af því en að vígslunni lokinni hafa þeir verið teknir inn í samfélagið. Greinilegt er að nemendum finnst mikilvægt að vígslunum sé breytt sem minnst. Þeir vilja að það sem busarnir í ár séu látnir ganga í gegnum sé sambærilegt við það sem nemendur þurftu að ganga í gegnum í fyrra. Með því að allir árgangar gangi í gegnum "það sama" ár eftir ár þá eiga þeir þessa reynslu sameiginlega. Þessi sameiginlega reynsla verður til þess að samkennd verður til innan hópsins. Busavígslur eru þess vegna mikilvægur hluti af því að vera hluti af hópnum innan hvers skóla fyrir sig.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.