Erlent

Þýska leyniþjónustan stjórnar njósnum gegn sýrlenska hernum

Þýskir og breskir fjölmiðlar hafa greint frá því að það sé þýska leyniþjónustan sem stjórni njósnum Vesturveldanna gegn sýrlenska hernum.

Þýska leyniþjónustan notar sérbúin skip sem staðsett eru skammt undan strönd Sýrlands til að njósna um herflutninga og annað á vegum sýrlenska hersins. Með búnaðinum um borð er hægt að fylgjast náið með öllu því sem gerist innan Sýrlands í allt að 600 kílómetra fjarlægð frá skipunum. Þar að auki mun leyniþjónustan hafa á að skipa öflugu njósnaneti innan Sýrlands.

Öllum upplýsingum sem leyniþjónustan safnar saman er samstundis lekið til uppreisnarmannanna sem berjast gegn stjórnvöldum í Sýrlandi. Sá leki fer í gegnum herstöð NATO í Adana í Tyrklandi.

Þá greina breskir fjölmiðlar frá því að njósnastarfsemi þýsku leyniþjónustunnar sé studd af bresku leyniþjónustunni MI6 frá tveimur herstöðvum Breta á Kýpur.

Þýska blaðið Bild am Sonntag hefur eftir háttsettum embættismanni í þýska utanríkisráðuneytinu að Þjóðverjar geti verið stoltir af þeirri aðstoð sem þeir veita uppreisnarmönnunum með þessum njósnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×