Innlent

Telur það engum tilgangi þjóna að halda embættistöku í þinghúsinu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Björn Valur Gíslason, formaður þingflokks VG.
Björn Valur Gíslason, formaður þingflokks VG.
Nokkrir þingmenn létu ekki sjá sig við innsetningu forsetans í gær af ýmsum ástæðum. Björn Valur Gíslason, formaður þingflokks VG, mætti ekki á það sem hann telur uppstrílaðan og fram úr hófi formlegan atburð en hann telur engum tilgangi þjóna að halda embættistökuna í húsakynnum Alþingis.

Sitjandi forseti sem í gær var í fimmta sinn settur í embætti forseta þegar hann var lýstur réttkjörinn forseti við embættistöku í þinghúsinu í gær, hefur í þrígang virt vilja Alþingis að vettugi með því að synja lögum staðfestingar.

Björn Valur Gíslason, formaður þingflokks Vinstri grænna, lét ekki sjá sig við athöfnina. Björn Valur segir að ekki sé um þinglega athöfn að ræða og þingmönnum beri engin skylda til að vera viðstaddir.

Hefur oft farið gegn þingræðinu

„Í fyrsta lagi þá hafði ég annað og betra að gera á þessum degi en að arka um í kjólfötum á göngum þingsins, Ólafi Ragnari til heiðurs. Í öðru lagi þá finnst mér þessi athöfn dálítill hégómi í raun og veru og þetta er að mínu mati eitthvað sem ekki á að fara fram í þinghúsinu. Þetta er ekki þingleg athöfn, að setja forseta í embætti. Það á að gera þetta með allt öðrum hætti og hleypa öðrum að en þingmönnum og fyrirmönnum. Svo skiptir það máli að þarna er verið að setja mann í embætti forseta sem oft hefur farið gegn þingræði í landinu og farið gegn vilja mikils meirihluta þingsins og hótar að gera það áfram. Þannig að þetta er ekki sérstakt gleðiefni og ég ætla ekki að taka þátt í húrrahrópum Ólafi Ragnari til heiðurs," segir Björn Valur í samtali við fréttastofu.

Hann nefnir að eðlilegra væri að halda innsetninguna við aðrar aðstæður, til dæmis á Þingvöllum, þar sem almenningur gæti hyllt forsetann.

Á meðal annarra þingmanna sem ekki létu sjá sig við innsetninguna voru Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanenfdar, sem var fjarverandi í fríi og þá var Bjarni Benediktsson ekki mættur en hann er þessa dagana viðstaddur sérstaka Íslendingahátíð í slóðum Vestur-Íslendinga í Kanada.

Aðeins einn fyrrverandi forsætisráðherra var viðstaddur innsetninguna í gær, Þorsteinn Pálsson, en þrír aðrir létu ekki sjá sig, þeir Geir H. Haarde, Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.