Yfirburðir Fram í fyrri hálfleik voru miklir og mátti Grindavík þakka fyrir að aðeins munaði einu marki á liðunum í hálfleik. Óskar Pétursson fór á kostum í markinu en Grindavík réð ekkert við hraða Kristins Inga Halldórssonar.
Grindavík komst mun meira inn í leikinn í seinni hálfleik og var meira jafnræði með liðunum. Eftir að Fram komst yfir öðru sinni færðu Grindvíkingar sig framar og áttu sínar bestu sóknir og uppskáru mikilvægt jöfnunarmark þegar öll sund virtustu lokuð.
Bæði lið fengu færi til að tryggja sér sigurinn en allt kom fyrir ekki og því munar enn sex stigum á liðunum. Grindavík er sem fyrr í botnsætinu nú með 7 stig, stigi á eftir Selfossi. Fram er komið með 13 stig og ljóst að spennan helst eitthvað áfram í botnbaráttunni þó önnur lið blandi sér ekki í hana úr þessu.
Þorvaldur: Áttum að klára þetta

„Við eigum að skora miklu meira en eitt mark í fyrri hálfleik og svo strax í seinni hálfleik líka. Við fáum færi til að klára þá en þegar menn klára ekki færin getur það komið í bakið á manni. Við fengum stig og tökum það.
„Það er ekkert til sem heitir þægilegt í þessu. Þetta er haltu slepptu staða í deildinni. Ég hefði viljað þrjú stig en við tökum eitt. Þetta er svekkjandi þar sem við vorum töluvert betra liðið. Það er sagan okkar, liðið spilaði vel og barðist en það er grátlegt að nýta ekki þessi færi," sagði Þorvaldur að lokum.
Guðjón: Þurfum meiri trú

„Við sýndum karakter að jafna hérna í restina og ég hefði viljað sjá skotið hans Tomi hér í restina hitta ramann en ekki fara yfir slána. Við vorum nálægt því að ná öllum þremur stigunum en það gerðist ekki því miður og því er staðan óbreytt á botninum.
„Við hefðum getað verið meira undir í hálfleik, fyrri hálfleikurinn var slakur hjá okkur en engu að síður fengum við eitt besta færið í fyrri hálfleiknum. Í sjálfu sér hefðu Framarar getað sett eitt líka. Í seinni hálfleik hefðum við getað búið til betri stöður en gerum.
„Það hefði verið hræðilegt að tapa þessum leik, þá hefðum við þurft nánast kraftaverk en það kom fínn kraftur í þetta. Hafþór gerði það sem hefur oft vantað hjá okkur, hann var virkur í teignum fylgdi á eftir og kom boltanum yfir línuna.
„Eins og staðan er núna hefur ekkert breyst og þetta verður blóðug barátta alveg til loka. Ég vil meina að við eigum meira inni en það sem menn hafa verið að taka í þessar 90 mínútur en það virðist alltaf vera þannig að menn þurfa að vera komnir í einhverja dauða stöðu til að þeir stígi fastar til jarðar. Við þurfum að spila í 90 mínútur og hafa meiri trú. Ég hef talað um þetta frá því við byrjuðum í vor að menn þurfi að hafa meiri trú á sjálfum sér og félögunum í liðinu. Við sjáum að það er alveg hægt að flytja boltann og færa hann á milli manna þegar sá gállinn er á, sagði Guðjón að lokum.