Innlent

Umdeildar umferðareyjar teknar niður

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Svona átti svæðið að líta út.
Svona átti svæðið að líta út. mynd/ vegagerðin.
Vegagerðin hefur ákveðið að taka niður umdeildar umferðareyjar í þéttbýlishliðum inn í þjóðgarðinn á Þingvöllum. Vegagerðin viðurkennir að hafa gert mistök og biðst afsökunar á þeim. Þéttbýlishliðin verða áfram en með annarri útfærslu. Umræddar umferðareyjar vöktu nokkra furðu eftir að myndir tóku að birtast á Netinu. Vegagerðin er staðráðin í því að vinna áfram af krafti að umferðaröryggismálum, jafnt í þjóðgarðinum á Þingvöllum sem annarsstaðar.

Þéttbýlishlið eru samkvæmt orðanna hljóðan sett upp á þjóðvegum sem liggja í gegnum þéttbýli og hefur það tekist mjög vel víða um land. Vegagerðin segir að nú sé ljóst að sama útfærsla á leið inn í þjóðgarðinn, þar sem ekki er þéttbýli, sé óheppileg og það hafi verið mistök að sjá það ekki fyrir. Auk þess krefst slíkt veglýsingar sem ekki er fyrir hendi.

Eyjarnar verða teknar niður svo fljótt sem verða má. Rétt er eigi að síður að minna á að áður en að þéttbýlishliðinu er komið er búið að lækka hámarkshraðann með skiltum, fyrst í 70 km/klst. og síðan í 50 km/klst. Þéttbýlishliðin eru þar að auki nokkuð stór og áberandi. Því er enn á ný brýnt fyrir vegfarendum að fylgjast vel með umferðarmerkingum og fylgja þeim hraðafyrirmælum sem gilda hverju sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×