Íslenski boltinn

Magnús Gylfason: Við verðum að teljast heppnir með þennan sigur

Stefán Árni Pálsson skrifar
Magnús Gylfason, þjálfari ÍBV.
Magnús Gylfason, þjálfari ÍBV.
„Þetta var algjör vinnusigur hjá okkur í dag," sagði Magnús Gylfason, þjálfari ÍBV, eftir sigurinn gegn Fram fyrr í dag. Eyjamenn unnu sinn fimmta sigur í röð í Pepsi-deild karla í knattspyrnu.

ÍBV vann góðan sigur, 3-2, á Fram í 11. umferð Pepsi-deildarinnar en þetta er fimmti sigurinn í röð hjá Eyjamönnum í deildinni.



„Við vorum þreyttir í dag og það sást á okkar leik. Menn voru þungir á sér og í raun í fyrsta skipti í sumar finnst mér við hafa verið heppnir að fá öll stigin þrjú. Það hefur verið mikið álag á hópnum að undanförnu og þessi sigur var gríðarlega mikilvægur."

„Framarar voru virkilega sterkir í dag og léku vel. Við verðum að teljast heppnir að hafa farið með sigur af hólmi. Leikur okkar var ekki nægilega beinskeyttur og ég bjóst alveg eins við því. Ég er rosalega ánægður með vinnuframlagið hjá strákunum og þeir eiga mikið hrós skilið."

„Það var einnig mikilvægt uppá sjálfstraustið að gera að ná í þessi stig þar sem við töpuðum tveimur leikjum í röð í bikarnum og Evrópukeppninni. Við erum á góðu skriði í deildinni og vonandi verður áframhald á því."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×