Íslenski boltinn

Fréttum það í gegnum fjölmiðla að Gary væri á leiðinni til okkar

Gary Martin.
Gary Martin. Guðmundur Bjarki Halldórsson
Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, segist fyrst hafa heyrt það frá fjölmiðlum að ÍA hefði samþykkt tilboð félagsins í Gary Martin og að leikmaðurinn væri við það að ganga til liðs við þá. Þetta kom fram í viðtali við formanninn í útvarpsþættinum Boltanum á X-inu í morgun.

Kristinn reiknar með að heyra í forráðamönnum ÍA í dag og framhaldinu ræða við Gary Martin, væntanlega um kaup og kjör.

"En allt fór þetta miklu hraðar í loftið en við reiknuðum með.En það er alveg klárt mál að við munum hafa samband við Skagamenn í dag", sagði Kristinn.

Steven Lennon greindi frá því í sama þætti í morgun að Fram hefði hafnað tilboð KR í leikmanninn, eitthvað sem hann sjálfur var mjög ósáttur við. Aðspurður um hvor leikmaðurinn væri ofar á óskalista KR, Lennon eða Martin, sagði Kristinn það ekki vera venju hjá KR að tjá sig um þá leikmenn sem liðið sækist eftir.

"Ég vil ekki ræða um þá leikmenn sem við gerum tilboð í né þau tilboð sem er hafnað. Menn verða bara að geta í eyðurnar. Ég get samt sagt að auðvitað er Steven Lennon frábær leikmaður en sem stendur erum við ekki með neitt í höndunum frá Frömurum að hann sé á leiðinni til okkar. Þannig er það bara og ekkert við það að bæta að svo stöddu, hvað svo sem síðar verður", sagði Kristinn.

Sögusagnir hafa verið uppi um að einhverjir leikmenn gætu verið á leið frá KR í kjölfar kaupa félagsins á Lennon eða Martin. Kristinn sagði ekkert hæft í þeim orðrómi.

"Það vilja allir vera í KR sem eru hjá okkur í dag og á meðan svo erum við ánægðir með að hafa þá. Við þurfum ekkert að losa úr hópnum þó við bætum í hann", sagði Kristinn að lokum en hann var staddur í Helsinki þar sem hann fylgdist með sínum mönnum tapa fyrir HJK Helsinki, 7-0 í gærkvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×