Íslenski boltinn

Gary Martin samdi við KR til 2015 | KR-ingar opnir fyrir Lennon

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd / Guðmundur Bjarki
Englendingurinn Gary Martin skrifaði í dag undir þriggja og hálfs árs samning við KR. Martin, sem spilað hefur með ÍA undanfarin tvö ár, mætti á sína fyrstu æfingu með Vesturbæjarliðinu í dag.

Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, staðfesti þetta í samtali við Vísi fyrir stundu.

Mikið hefur verið rætt og ritað um fyrirhuguð félagaskipti Martin. Kristinn Kærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, staðfesti við íþróttadeild fyrr í dag að samkomulag hefði komist um kaupverð sem er trúnaðarmál að sögn Kristins.

Kristinn staðfesti ennfremur að tilboði félagins í Skotann Steven Lennon hefði verið hafnað. Hann sagði félagið þó enn vinna í því að styrkja sig og segir kaupin á Martin engu breyta um þá ætlan Vesturbæjarliðsins.

433.is greindi frá því í vikunni að tilboð KR-inga í Lennon hefði hljóðað upp á 4,5 milljónir króna. Kristinn vildi ekkert tjá sig um tilboðið í Lennon í samtali við Vísi.

Gary Martin átti aðeins nokkra mánuði eftir af samningi sínum við ÍA. Samningur Lennon við Fram rennur hins vegar út á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×