Íslenski boltinn

Laudrup farinn frá Stjörnunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Stefán
Mads Laudrup hefur leikið sinn síðasta leik með Stjörnunni en lánssamningur hans við félagið rann út um síðustu mánaðamót.

Laudrup lék alls sex leiki í Pepsi-deild karla í byrjunarliði en hann kom inn á sem varamaður í síðasta leiknum, gegn FH þann 20. júní síðastliðinn. Hann var svo í byrjunarliðinu í bikarleik Stjörnunnar gegn Reyni Sandgerði í síðustu viku en það reyndist vera hans lokaleikur með liðinu.

„Það stóð aldrei til að hann yrði lengur hjá okkur. Nú er hann farinn aftur til Danmerkur og ég veit í raun ekki hvað hann tekur sér fyrir hendur þar," sagði Bjarni Jóhannsson í samtali við Vísi í morgun.

„Mér fannst hann fínn til að byrja með og heilt yfir standa sig vel. Hann hjálpaði okkur í hraðmótinu í maí þegar við vorum laskaðir og lykilmenn meiddir. Hann var snöggur að aðlagast lífinu og það var gott að hafa hann," bætti hann við.

Mads er sonur Michael Laudrup sem er einn þekktasti knattspyrnumaður Dana frá upphafi. „Það var auðvitað mikil spenna í kringum fjölskyldunafnið og kallinn ætlaði nú að koma hingað. Hann var búinn að bóka far og ætlaði að vera hér í viku. En svo setti Swansea strik í reikinginn," sagði Bjarni en Laudrup var ráðinn stjóri Swansea í síðustu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×