Fótbolti

Marklínutækni líklega samþykkt í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úkraínumenn heimta hér mark gegn Englandi sem var ekki dæmt.
Úkraínumenn heimta hér mark gegn Englandi sem var ekki dæmt. Nordic Photos / Getty Images
Allar líkur eru á því að samþykkt verði að taka upp svokallaða marklínutækni í knattspyrnu, en fundað verður um það í dag.

Alþjóðleg samtök sem nefndast International Football Association Board, IFAB, funda í dag og taka þá ákvörðun um hvort innleiða eigi þessa tækni í knattspyrnulög.

IFAB var stofnað árið 1886 og eiga fulltrúar knattspyrnusambanda Bretlandseyja, alls fjögur talsins, hvert sitt atkvæði. Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, á svo fjögur atkvæði.

Alls þarf sex atkvæði til að samþykkja allar lagabreytingar en samkvæmt fregnum ytra eru taldar miklar líkur á því að tillögur um marklínutækni verða samþykktar.

Sepp Blatter, forseti FIFA, vill innleiða marklínutækni sem sker úr um hvort að boltinn hafi farið yfir línuna eða ekki. Úkraína skoraði til að mynda löglegt mark í 1-0 tapi gegn Englandi sem ekki var dæmt gilt af dómara leiksins, þó svo að boltinn hafi allur farið yfir línuna.

Michel Platini, forseti UEFA, vill frekar halda áfram að notast við fimm dómara á knattspyrnuleikjum frekar en marklínutækni. IFAB mun einnig meta í dag árangur þess að vera með fimm dómara á leikjum í stað þriggja.

IFAB mun einnig ræða um hvort að klæðast megi höfuðklútum í knattspyrnuleikjum, eins og krafa er um meðal margra múslimaþjóða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×