Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fram - KR 1-2

Kristinn Páll Teitsson á Laugardalsvelli skrifar
mynd/ernir
Þrátt fyrir að hafa ekki spilað sinn besta leik náðu KR að kreista fram sigurinn undir lokin í 2-1 sigri þeirra á Fram í Laugardalnum í dag. Þeir hafa núna unnið fjóra leiki í röð og eru aðeins einu stigi á eftir toppliði ÍA í Pepsi deild karla.

Gengi KR gegn Fram hefur verið gott síðastliðin ár og á síðustu tíu árum hafa þeir aðeins tvisvar tapað gegn Fram á Íslandsmótinu, gert tvö jafntefli en unnið fjórtan leiki.

Fyrri hálfleikurinn var ekki mikið fyrir augað, bæði liðin lágu aftur og var mikil miðjubarátta. Fram fengu þó tvö góð færi eftir undirbúning Kristins Inga Halldórsson, þá lék hann upp hægri kantinn og sendi boltann fyrir en KR náðu að koma boltanum frá á síðustu stundu.

Fyrsta mark dagsins kom á 57. mínútu, þá átti Óskar Örn góðan sprett af miðjunni og sendi inn með viðkomu af Samuel Tillen á Viktor Bjarka sem gerði vel og kom KR yfir. Kristinn Ingi sem var besti leikmaður Fram í leiknum náði að jafna metin tuttugu mínútum síðar eftir að ná eigin frákasti eftir góðan sprett.

Það var svo Óskar Örn Hauksson sem náði að skora sigurmarkið þegar 83. mínútur voru búnar af leiknum, KR fengu hættulega aukaspyrnu sem þeir reyndu að spila leikkerfi úr, boltinn hinsvegar fór af varnarvegg Fram í fætur Bjarna Guðjónssonar sem fann Óskar Örn á vítateigsboganum og skoraði hann með skoti í fjærhornið.

Fram náðu ekki að jafna eftir það og lauk leiknum því með 2-1 sigri KR, þrátt fyrir að hafa ekki verið betri í leiknum náðu þeir að kreista fram sigurinn. Þessi þrjú stig gætu reynst þeim vel þegar dregur á Íslandsmótið eins og sást í fyrra þegar þeir söfnuðu fjöldan allra stiga með slíkum vinnusigrum.

Framarar þurfa hinsvegar að fara að stíga upp ef þeir ætla að standa undir væntingum frá undirbúningstímabilinu, á þeim tíma skoruðu þeir feykinóg og virtust þeir vera á leið í toppbaráttuna. Þeir geta þó huggað sig við það að mótið er rétt byrjað og þeir hafa enn nægann tíma til að snúa taflinu við, líkt og þeir gerðu á síðasta tímabili.

Rúnar: Menn vita að þeir eru góðir í fótbolta„Svona sigrar skila okkur þremur stigum, ég er ánægður með framlag minna sem börðust á fullu og þrátt fyrir að vera orðnir þreyttir undir lokin eftir jöfnunarmarkið farið fram og skorað sigurmarkið," sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR eftir leikinn.

„Við höfum oft klárað svona leiki, tiltrú manna á eigin getu er mikil í þessu liði og menn vita að þeir eru góðir í fótbolta. Í dag lögðumst við of langt til baka eftir að hafa komist yfir og fengum á okkur mark en náðum að svara því með sigurmarkinu og hefðum jafnvel getað bætt við hérna undir lokin."

„Liðin þekkja hvort annað út og inn, við ætluðum að leyfa þeim að vera með boltann aðeins í byrjun og sjá hvert það færi. Við ætluðum að sækja hratt á þá en það gekk ekki, við spiluðum ekki okkar besta leik en gáfum fá færi á okkur í vörninni."

Eftir aðeins eitt stig í fyrstu tveimur leikjunum eru KR búnir að vinna fjóra leiki í röð.

„Við teljum okkur vera með sterkt lið og við erum komnir í toppbaráttuna, við hlið FH einu stigi frá toppnum. Við ætlum okkur að vera með í þessari baráttu sem verður hörð og svo eru nokkur lið fyrir neðan sem ætla sér eflaust að kroppa eitthvað í þessa baráttu," sagði Rúnar.

Þorvaldur: Þarf mistök til að tapa leikjum„Okkar mistök urðu til þess að þeir unnu leikinn og það þarf mistök til að tapa leikjum," sagði Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram eftir leikinn.

„Það er gríðarlega svekkjandi að fá ekki neitt úr þessu, mér fannst við gera nóg til að fá eitthvað úr leiknum hérna í dag. Fyrra markið var hálfgerð heppni hvernig boltinn dettur fyrir hann en í seinna markinu var Ögmundur óheppinn, það virkar oft stærra þegar markmenn gera mistök en ég er viss um að hann á eftir að bjarga okkur í sumar."

Eftir spár um gott gengi Fram í sumar hefur liðið aðeins unnið tvo af fyrstu sex leikjum liðsins.

„Það er nú yfirleitt talað um að byrja vel en það skiptir ekki máli ef endirinn er slæmur. Það er svekkjandi að við höfum verið að spila miklu betur en andstæðingurinn í leikjum í sumar en ekkert fengið út úr því, það er auðvitað svekkjandi."

Gengi Fram gegn KR á Íslandsmótinu sl. 10 ár hefur vægast sagt verið slakt, aðeins tveir sigurleikir í átján leikjum.

„Ég kalla þetta nú varla grýlu, margir af þessum strákum voru ekki að spila þessa leiki. Síðustu leikir hafa verið tæpir og við hefðum bæði getað fengið eitthvað út úr leikjunum hér í dag eða í fyrra, vonandi notum við þetta mótlæti til að byggja upp en ekki brjóta okkur niður," sagði Þorvaldur.

Óskar: Höfum verið að klára þessa vinnusigra„Síðustu leikir hafa verið svona, vinnusigrar. Í fyrstu leikjunum vorum við að tapa og gera jafntefli en þetta er hvernig við viljum spila, ekki fá á okkur mörg mörk," sagði Óskar Örn Hauksson, leikmaður KR eftir leikinn.

„Fram er hörku lið sem vill líka vera í toppbaráttu og maður þarf að klára svona leiki, þetta voru þrjú erfið en dýrmæt stig."

KR hefur núna unnið fjóra leiki í röð eftir hikst í fyrstu tveimur leikjum mótsins.

„Við erum ánægðir með þennan kafla, ágætis uppskera eftir byrjunina. Við ætlum að að reyna að vinna eins marga leik og við getum, fá eins mörg stig og við getum og sjá hvert það skilar okkur."

„Bæði liðin byrjuðu mjög taktískt, liðin þekkja vel hvort annað en leikirnir á undirbúningstímabilinu skipta litlu máli, við viljum vinna leikina á Íslandsmótinu," sagði Óskar.

Kristinn: Fannst við vera betri en þeir„Mér fannst við vera betri og fá fleiri færi og er því erfitt að kyngja þessu, mjög svekkjandi tap,"  sagði Kristinn Ingi Halldórsson, leikmaður Fram eftir leikinn.

„Bæði lið reyndu að vera þétt og fóru hægt inn í leikinn, reyndu að loka svæðunum og prófa sig áfram. Við eigum ekki að tapa þessum leik, mér fannst við einfaldlega bara betri en þeir."

Eftir leikinn eru Fram með aðeins tvo sigra í sex leikjum eftir gott gengi á undirbúningstímabilinu.

„Það er auðvelt að sjá hversu miklu svona sigrar skila, þeir fara heim með þrjú stig en við ekkert. Í stað þess að vera einu stigi á eftir þeim erum við sjö stigum á eftir þeim. Við þurfum einfaldlega að fara að klára leiki, það er ekki flóknara en það," sagði Kristinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×