Enski boltinn

Cole vill snúa aftur á Anfield

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Joe Cole segist vera áhugasamur um að spila með Liverpool á ný eftir að hafa verið í láni hjá franska úrvalsdeilarliðinu Lille í vetur.

Cole átti erfitt uppdráttar hjá Liverpool eftir að hann samdi við liðið sumarið 2010. En hann vill fá annað tækifæri til að sanna sig fyrir stuðningsmönnum félagsins.

„Það kom mér örlítið úr jafnvægi að semja við Liverpool á sínum tíma," sagði hann við enska fjölmiðla í dag. „Ég veit ekki hvort að pressan varð mér ofviða en þetta er borg sem er ástfangin af knattspyrnu. Þetta eru trúarbrögð. Ef ég sný aftur verð ég að vera betur undirbúinn en síðast."

Þjálfari Lille, Rudi Garcia, hefur áhuga á að halda Cole og þá hefur hann einnig verið orðaður við sitt gamla félag, West Ham. En sjálfur er hann spenntur fyrir því að snúa aftur á Anfield.

„Ég vil ekki vera með mislukkaða veru hjá Liverpool á ferilskránni minni. En þetta er ekki í mínum höndum. Ég get ekki útilokað neitt eins og er. Við verðum bara að ræða við Liverpool og sjá til."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×