Innlent

Erfðabreyttar mýs í tilraunir

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Íslenskt rannsóknarfyrirtæki hefur fengið leyfi til að nota erfðabreyttar mýs í tilraunir. Mýsnar verða notaðar ásamt rottum til að rannsaka sykursýki.

Þetta er í fyrsta sinn sem að rannsóknarfyrirtækið ArcticLAS fær leyfi til að nota erfðabreyttar mýs. Það var stofnað árið 2009 af fyrrverandi starfsmönnum deCODE sem höfðu starfað þar við lyfjarannsóknir.

Fyrirtækið hefur síðan þá sinnt rannsóknum fyrir innlend og erlend lyfjafyrirtæki. Á dögunum veitti Umhverfisstofnun því leyfi til að nota erfðabreyttar mýs í rannsókn á sykursýki.

„ Þetta eru sem sagt mýs þar sem búið er að óvirkja eitt geng sem að skráð er fyrir einu ákveðnum próteini og það er verið að athuga hvort að þetta prótein hafi áhrif á svörun á sykurþolspróf. Það er verið að rannsaka sykursýki týpu 2", segir Katrín Ástráðsdóttir líffræðingur hjá ArcticLAS.

Hún segir tilganginn vera að reyna að sjá hvort að þetta tiltekna prótein hafi áhrif á sykursýki svo hægt sé að þróa lyf.

Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun eru tvö önnur leyfi í gildi hér á landi fyrir notkun á erfðabreyttum lífverum í rannsóknum en Háskóli Íslands hefur þau bæði.

Katrín segir mýsnar koma frá Danmörku þar sem þær eru ræktaðar en þær líta út eins og aðrar mýs. Þá notar fyrirtækið einnig rottur í rannsóknir. Alls eru hátt í tvö hundruð dýr á rannsóknarstofunni, 150 mýs og 40 rottur. „ Allt stress og öll neikvæð áhrif á dýrin hefur áhrif á tilraunina þannig að það er lagt mjög mikið upp úr því að gera vel við þau", segir Katrín að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×