Innlent

Lífeyrissjóðir bjóða ríkinu að kaupa kröfur og taka á sig allan kostnað

Höskuldur Kári Schram skrifar
Lífeyrissjóðirnir eru tilbúnir að hjálpa stjórnvöldum að finna viðeigandi lausnir á vanda skuldara með lánsveð. Þetta segir framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða. Afstaða sjóðanna til afskrifta sé hins vegar óbreytt.

Fulltrúar lífeyrissjóðanna mættu til fundar með ráðherrum ríkisstjórnarinnar í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu í dag vegna vanda þeirra tvö þúsund skuldara sem eru með lánsveð. Sjóðirnir hafa hingað til tekið illa í hugmyndir ríkisstjórnarinnar um lækkun skulda.

„Við vorum boðuð af ráðherra og viljum heyra í honum hvaða hugmyndir hann hefur fram að færa og svo vinnum við úr því í sameiningu og vonandi ná allir einhverri ásættanlegri lausn," segir Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.

En er ykkar afstaða, er hún óbreytt?

„Hún hefur alltaf staðið óbreytt frá upphafi," svarar Þórey. Spurð hvort hún sjái engar leiðir til að landa málinu svarar hún: „Jú, hugsanlega, það er það sem við erum að gera núna, hjálpa stjórnvöldum að finna leiðir sem verða ásættanlegar fyrir þjóðfélagsþegnana."

Lífeyrissjóðirnir hafa meðal annars boðið ríkisstjórninni að kaupa kröfurnar en það þýðir að ríkið tekur á sig allan kostnað vegna málsins.

„Lífeyrisjóðirnir hafa ekki heimildir til að gefa eftir eignir og það stendur óbreytt og mun standa óbreytt áfram. Það er samhugur um að halda einu kerfi, það er lífeyrissjóðakerfi sem almenningur borgar í og stjórnir sjóðanna hafa engar heimildir til að gefa eftir eigu sjóðfélagana," segir Þórey að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×