Innlent

Villti ökumaðurinn var próflaus

Björgunarsveitarmenn frá Kópaskeri og síðan Mývatni eyddu miklum tíma og fyrirhöfn í nótt við að leita að ramvilltum íslenskum ferðamanni, sem fannst loks í föstum bíl sínum á lokuðum hálendisvegi í morgun. Hann reyndist vera próflaus.

Maðurinn hringdi fyrst eftir hjálp um miðja nótt og taldi sig vera í eða við Ásbyrgi þannig að sveit var send frá Kópaskeri, sem fann hvorki mann né bíl á þessum slóðum.

Símasamband var við manninn þannig að smátt og smátt beindist athygli björgunarmanna að útvegi frá þjóðveginum við Grímstaði á Fjöllum, svonefndri eystri leilð að Dettifossi, sem rækilega er merkt lokuð auk þess sem keðja er þar strengd á milli tveggja staura.

Á leiðinni þangað kom í ljós að keðjunni hafði varið slakað niður til að aka yfir hana, og skömmu síðar fannst bíllinn og maðurinn, heill á húfi.

Björgunarmenn hjálpuðu honum niður á þjóðveg, en þegar Húsavíkurlögreglan frétti af málinu bað hún Akureyrarlögregluna að stöðva manninn og haf tal af honum. Kom þá í ljós að hann var ökuréttindalaus þannig að hann fær ekki að aka lengra á bílnum.

Honum er því nauðugur sá kostur að halda heimferð sinni til Reykjavíkur áfram, gangandi, skríðandi, ríðandi eða fljúgandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×