Innlent

Sigurrós á Airwaves - stórtónleikar í nýju Laugardalshöll

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Hljómsveitin Sigur Rós verður aðalnúmerið á Iceland Airwaves hátíðinni í ár. Ellefu ár eru síðan sveitin kom síðast fram á Airwaves og fjögur ár eru liðin frá síðustu tónleikum hennar hér á landi.

Sigur Rós lokar hátíðinni í ár með veglegum tónleikum sunnudagskvöldið fjórða nóvember í nýju Laugardalshöllinni en hátíðin hefst 31. október. Kári Sturluson umboðsmaður Sigur Rósar segir í samtali við fréttastofu að með því að hafa tónleikana þar sé hægt að koma öllum gestum hátíðarinnar fyrir og fleirum til. Tónleikarnir verða lokahnykkurinn á tónleikaferð þeirra um Bandaríkin, Asíu og Evrópu og hingað mun sveitin mæta með allt sitt hafurtask. „Eiginlega í fyrsta skipti í langan tíma sem við náum að koma öllu dótinu okkar fyrir á tónleikum á Íslandi."



Síðustu tónleikar sveitarinnar hér á landi voru í nóvember 2008 en Kári segir að þá hafi þeir ekki náð að vera með allt með sér. „En við náum því núna."

Sigur Rós spilaði síðast á Airwaves árið 2001, í Listasafni Reykjavíkur.

Í tilkynningu frá Iceland Airwaves segir að þeir sem keypt hafi miða á hátíðina standi til boða að kaupa miða á tónleika Sigur Rósar frá sextánda maí næstkomandi. Miðaverð fyrir hátíðargesti er 3900 krónur. Síðar mun almenningi standa til boða miðar í höllina og munu þeir kosta 5900 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×