Innlent

Kjartan enn í Sigur Rós

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hljómsveitin Sigur Rós.
Hljómsveitin Sigur Rós.
Hljómsveitin Sigur Rós undirbýr þessa dagana tónleikaferð sem farin verður til að fylgja eftir disknum Valtara sem kemur út í lok þessa mánaðar. Tónleikaferðin hefst í júlí, en eins og kunnugt er verður henni lokið með tónleikum á Iceland Airwaves í haust.

Gunnar Lárus Hjálmarsson, eða dr. Gunni, fullyrti á bloggsíðu sinni í kvöld að Kjartan Sveinsson væri hættur í hljómsveitinni og væri ekki með á nýju plötunni. Vísir hefur ekki náð í Kjartan en Orri Páll Dýrason trommuleikari og Georg Holm bassaleikari fullyrtu báðir í samtali við Vísi að Kjartan væri með á plötunni. Orri Páll Dýrason vildi engu svara þegar hann var spurður hvort Kjartan væri hættur í hljómsveitinni en Georg sagðist telja að um misskilning væri að ræða. Hann vissi ekki hvaðan þann misskilning mætti rekja.

Fréttavefur Morgunblaðsins hefur eftir Kára Sturlusyni, umboðsmanni Sigur Rósar, að Kjartan sé ekki hættur í hljómsveitinni, þó svo enn sé ekki ákveðið hvort hann spili með þeim á tónleikaferðalaginu.

Rétt er að geta þess að dr. Gunni hefur dregið fullyrðingar á bloggfærslu sinni til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×