Íslenski boltinn

Andri enn frá vegna meiðsla | Gunnar Már tæpur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andir skallar hér boltann í leik gegn Stjörnunni í september síðastliðnum. Hann meiddist í þessum leik.
Andir skallar hér boltann í leik gegn Stjörnunni í september síðastliðnum. Hann meiddist í þessum leik. Mynd/Vilhelm
Þó nokkuð er um forföll í leikmannahópi ÍBV þessa dagana en óvíst er hvenær fyrirliðinn Andri Ólafsson geti byrjað að spila á ný. Gunnar Már Guðmundsson meiddist nýlega en vonir eru bundnar við að hann geti náð fyrsta leik í Pepsi-deildinni.

ÍBV mætir Selfossi í fyrstu umferð tímabilsins þann 6. maí næstkomandi og segir þjálfarinn Magnús Gylfason að Gunnar Már geti mögulega náð leiknum.

„Hann meiddist í æfingaferð okkar úti og var í fyrstu talið að hann þyrfti 4-6 vikur til að ná sér. Hann var svo hjá bæklunarlækni í gær og sagði að hann gæti mögulega komist aftur af stað eftir 2-3 vikur," sagði Magnús.

Meiri óvissa er um stöðu Andra sem hefur lengi verið að glíma við nárameiðsli. „Hann hefur verið að glíma við þessi nárameiðsli í nokkur ár núna. Hann fór svo mjög illa í leik gegn Stjörnunni í haust og fór eftir það í aðgerð," sagði Magnús.

„Hann hefur svo verið að reyna að koma sér aftur af stað en það hefur ekki gengið hingað til. Hann er nú hjá sérfræðingum sem eru að reyna að greina vandann svo hægt verði að bregðast við - mögulega með annarri aðgerð."

Sem kunnugt er verður Tryggvi Guðmundsson frá í ótilgreindan tíma eftir að hann greindist með blóðtappa. Hann er nú í lyfjameðferð og óvíst hvenær hann fái grænt ljós frá sínum læknum á að spila á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×