Íslenski boltinn

Stelpurnar komnar með bakið upp við vegg

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Margrét Lára, hér á æfingu með landsliðinu í Belgíu, var ekki á skotskónum gegn Belgum frekar en samherjar hennar.
Margrét Lára, hér á æfingu með landsliðinu í Belgíu, var ekki á skotskónum gegn Belgum frekar en samherjar hennar. Mynd / Facebook-síða KSÍ
Tap íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu gegn Belgíu í gærkvöldi breytti stöðu liðsins í undankeppninni til hins verra. Sigur hefði sett landsliðið í nokkuð afgerandi forystusæti en tapið þýðir að liðið má vart við að tapa stigum í þeim fjórum leikjum sem eftir eru.

Ellefu þjóðir auk gestgjafanna frá Svíþjóð komast í úrslitakeppni Evrópumótsins sem fram fer í júlí 2013. Sigurvegarar riðlanna sjö tryggja sér sæti auk þess liðs sem er með bestan árangur í öðru sæti. Hinar sex þjóðirnar sem hafna í öðru sæti síns riðils fara í umspilsleiki um sæti í lokakeppninni.

Nánari upplýsingar um stöðu mála í Riðli 3 má finna á heimasíðu Evrópska knattspyrnusambandsins með því að smella hér.

Íslenska liðið hafnaði í öðru sæti í sínum riðli í undankeppni Evrópumótsins árið 2009. Þá mætti liðið Írlandi í tveimur leikjum og höfðu betur samanlagt 4-1. Sigurinn tryggði liðinu sæti á stórmóti í fyrsta skipti en leikið var í Finnlandi haustið 2009.

Eftir tapið í gær eru Belgar komnir í forystusæti riðilsins með 14 stig, Ísland hefur 13 stig og Noregur 12. Belgíska liðið hefur þó leikið einum leik meira en Ísland og Noregur sem lagði Ungverja 5-0 á útivelli í gær.

Með sigri í fjórum síðustu leikjum sínum tryggir íslenska liðið sér sæti í lokakeppninni. Misstig líkt og í leikjunum gegn Belgum getur þó auðveldlega breytt EM-drauminum í martröð.

Þrír skyldusigrar og úrslitaleikur gegn NoregiÍsland tekur á móti Ungverjum á Laugardalsvelli 16. júní. Ungverjar hafa bæði tapað leikjum sínum stórt líkt og gegn Noregi í gær en einnig staðið í Belgum þar sem 2-1 tap á útivelli varð staðreynd. Á eðlilegum degi á íslenska liðið að pakka því ungverska saman en vanmat líkt og það sem virðist hafa átt sér stað í leikjunum gegn Belgum verður að vera fjarri Laugardalnum. Ísland vann 1-0 sigur í fyrri leik liðanna í Ungverjalandi.

Fimm dögum síðar sækir íslenska liðið slökustu þjóð riðilsins heim en Búlgarir eru stigalausir á botni riðilsins og hafa enn ekki skorað mark í sex leikjum.

Úrslitin í riðlinum ráðast svo í haust. Þann 15. september koma Norður-Írar í heimsókn á Laugardalsvöllinn og fjórum dögum síðar mætir íslenska liðið því norska í Sarpsborg. Hefði íslenska liðið staðið sig í stykkinu gegn því belgíska er líklegt að viðureignin í Noregi hefði ekki skipt máli. Ísland hefði þegar tryggt sér sigur í riðlinum. Ef allt er eðlilegt verður viðureignin í Noregi úrslitaleikur um efsta sæti riðilsins. Tap í leiknum gæti þýtt að 3. sæti riðilsins yrði hlutskipti íslenska liðsins sem væri þar með úr leik.

Noregur er stórþjóð í kvennaknattspyrnuÞrátt fyrir að íslenska liðið hafi unnið 3-1 sigur á því norska í fyrri viðureign þjóðanna skal hafa í huga að Noregur er stórþjóð í kvennaknattspyrnu. Liðið varð heimsmeistari árið 1995 og Ólympíumeistari fimm árum síðar í Sidney í Ástralíu.

Liðið hefur tvívegis orðið Evrópumeistari (1987 og 1993) auk þess sem liðið fékk silfur árið 2005 og brons í Finnlandi 2009.

Noregur er í 13. sæti styrkleikalista FIFA en íslenska liðið í 15. sæti. Til samanburðar er Belgía í 33. sæti listans, Ungverjaland í 35. sæti og Norður-Írland í 55. sæti.

Draumur íslenska kvennalandsliðsins og stuðningsmanna þess á því að endurtaka leikinn frá því fyrir fjórum árum er enn fyrir hendi. En þá má liðið ekki misstíga sig frekar í leikjum sínum.


Tengdar fréttir

Stelpurnar töpuðu í Belgíu

Ísland hefur misst toppsætið í sínum riðli í undankeppni EM 2013 eftir að stelpurnar okkar töpuðu fyrir Belgíu ytra í kvöld, 1-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×