Erlent

Heimsveldin uggandi yfir eldflaugaskoti Norðu-Kóreu

Hermaður stendur fyrir framan Unha-3 eldflaugina.
Hermaður stendur fyrir framan Unha-3 eldflaugina. mynd/AP
Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa komið hinni risavöxnu Unha-3 eldflaug fyrir á skotpalli á norðvesturströnd landsins. Á sama tíma berast fregnir af fyrirhugaðri tilraun með kjarnorkusprengju.

Stjórnvöld í Pyongyang halda því fram að tilgangur eldflaugaskotsins sé að koma gervitungli á sporbraut um jörðu.

Leiðtogar heimsveldanna eru þó uggandi yfir áformum Norður-Kóreu og halda því fram að tilgangur eldflaugaskotsins sé liður í þróun langdrægra eldflaugaskeyta sem borið geta kjarnaodda.

Talið er að eldflauginni verði skotið á loft seinna í vikunni. Yfirvöld í Japan hafa sett loftskeytavarnir sínar á efsta viðbúnaðarstig vegna skotsins.

Þá hefur varnamálaráðherra Japan fyrirskipað hermönnum sínum að skjóta niður eldflaugina.

Í dag bárust síðan gervitunglamyndir sem gefa til kynna að yfirvöld í Norður-Kóreu ætli að sprengja kjarnorkusprengju neðanjarðar.

Reynist þetta rétt verður þetta þriðja tilraun Norður-Kóreu með kjarnorkusprengju.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×