Innlent

ESB þrýsti á Geir um að tryggja hagsmuni erlendra kröfuhafa

Geir H. Haarde var á dögunum dæmdur af Landsdómi fyrir að brjóta lög um stjórnarskránna þegar hann hélt ekki ríkisstjórnarfundir um alvarleika efnahagsástandsins í aðdraganda hrunsins.
Geir H. Haarde var á dögunum dæmdur af Landsdómi fyrir að brjóta lög um stjórnarskránna þegar hann hélt ekki ríkisstjórnarfundir um alvarleika efnahagsástandsins í aðdraganda hrunsins.
„Ég fann fyrir miklum þrýstingi á þessum tíma. Meðal annars fékk ég símtal frá José Manuel Baroso um þetta mál. Ég fann að hann var með undirbúinn texta sem hann las að hluta til upp," lýsti Geir H. Haarde í viðtali við Sigurjón M. Egilsson í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun, en þar lýsti fyrrverandi forsætisráðherrann því hvernig ESB þrýsti á Geir um að gera vel við erlenda kröfuhafa í hruninu.

Baroso var þá forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Geir segir að hann hafi augljóslega verið með undirbúinn texta sem hann las upp í símann, „og þar skildi ég vel hvað hann var að fara. Hann lagði mikla áherslu á að við færum vel með erlenda lánadrottna," sagði Geir um þrýstinginn sem hann fann fyrir í hruninu.

Tilefni ummæla Geirs var spurning Sigurjóns um það hvort íslenska leiðin svokallaða, sem var að leyfa bönkunum að falla, hefði ekki einfaldlega verið tilviljanakennd. Geir svaraði því til að það hafi hvorki verið til fjármunir né hafi verið pólitískur vilji fyrir því að tryggja bankana.

Geir segir að þessi leið hafi verið möguleg hér á landi, hún sé illmögulegri í stærri löndum, en hafi verið möguleg í Írlandi að hans mati. Þannig tryggði írska ríkisstjórnin innistæður banka þar í landi, „en Írarnir urðu fyrir miklum þrýstingi innan ESB um að tryggja hagsmuni erlendra kröfuhafa," bætti Geir við þegar hann lýsti mismunandi leiðum ríkjanna við að takast á við afleiðingar kreppunnar. Írland sé enn að bíta úr nálinni vegna ákvörðunar um að treysta bankana með ríkisábyrgð á meðan flestir séu sammála um að Ísland sé að rísa vel og hratt upp úr hruninu sé tekið mið af öðrum ríkjum í sambærilegri stöðu.

Geir sagði svo að ef Ísland hefði verið í ESB á þeim tíma sem hrunið varð hér á landi, hefði verið erfiðara að standa í hárinu á framkvæmdastjórn ESB, sem virtist gera ríka kröfu um að aðildarlönd ábyrgðust banka sína til þess að koma í veg fyrir að þeir féllu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×