Íslenski boltinn

Tryggvi fékk blóðtappa í fótinn | Frá í þrjá til sex mánuði

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Tryggva hefur verið skipað að hvíla sig.
Tryggva hefur verið skipað að hvíla sig.
Það varð ljóst í dag að markahrókurinn Tryggvi Guðmundsson mun missa af upphafi Íslandsmótsins og alls óvíst hvenær hann getur snúið aftur inn á fótboltavöllinn.

Tryggvi fékk svokallaðan bláæðarblóðtappa í kálfann og þarf að hvíla í þrjá til sex mánuði. Hann mun því líklega ekki snúa aftur fyrr en í fyrsta lagi í júní. Í versta falli spilar hann ekki aftur fyrr en í september.

"Ég var búinn að vera slæmur aftan í kálfanum og hef ekkert skánað þrátt fyrir mikla sjúkraþjálfun. Þá fór ég í ómskoðun þar sem tappinn kom í ljós," sagði Tryggvi en það er alvarlegt mál að fá blóðtappa og Tryggvi má því ekkert gera næstu vikurnar.

Hann er kominn á blóðþynningarlyf og verður að gjöra svo vel að sætta sig við að fylgjast með af hliðarlínunni.

Það hefur ekki alltaf verið sterkasta hlið Tryggva sem er þekktur fyrir að bíta á jaxlinn og spila þó svo hann sé meiddur.

"Ég þarf að taka þessi meiðsli mjög alvarlega en ætla að reyna að vera bjartsýnn og vona það besta."

Nánar verður rætt við Tryggva í Fréttablaðinu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×