Enski boltinn

Ferguson sér eftir því að hafa ekki keypt Joe Hart á sínum tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joe Hart.
Joe Hart. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, segir það hafa verið mistök hjá sér að kaupa ekki Joe Hart, núverandi markvörð Manchester City, þegar fékk tækifæri til þess fyrir nokkrum árum.

Alex Ferguson eyddi miklum pening í að kaupa markverðina David De Gea og Anders Lindegaard til Old Trafford en markvarslan hefur samt verið í ólagi stærsta hluta tímabilsins. De Gea kostaði 18 milljónir punda (3,5 milljarðar í íslenskum krónum) frá Atlético Madrid og Lindegaard var keyptur á um 3,5 milljónir punda (686 milljónir í íslenskum krónum) frá norska liðinu Aalesund.

„Ég hefði getað keypt Joe Hart á hundrað þúsund pund á sínum tíma en við gerum öll mistök," sagði Alex Ferguson við BBC Radio. Manchester City keypti Joe Hart á 600 þúsund pund (117 milljónir í íslenskum krónum) frá Shrewsbury árið 2006.

„Ég er í engum vafa um það að Joe Hart verður aðalmarkvörður enska landsliðsins næstu tíu árin. Ef maður horfir tuttugu ár til baka þá er hann langbesti markvörðurinn sem hefur spilað fyrir enska landsliðið," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×