Enski boltinn

Ian Rush segir að öll pressan sé á Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ian Rush og Kenny Dalglish.
Ian Rush og Kenny Dalglish. Mynd/Nordic Photos/Getty
Ian Rush, goðsögn í sögu Liverpool, hefur smá áhyggjur af pressunni sem er á Liverpool-liðinu í úrslitaleik enska deildabikarsins um helgina en Liverpool mætir þar b-deildarliði Cardiff City á Wembley. Liverpool hefur ekki unnið titil í sex ár og flestir búast við sigri á móti Cardiff.

„Þú verður að vera sterkur andlega til að ráða við svona pressu. Ef menn ráða ekki við hana þá verður liðið í vandræðum," sagði Ian Rush sem hefur skorað nokkur mörkin í úrslitaleikjum á Wembley.

„Cardiff-liðið hefur engu að tapa því það býst enginn við því að þeir vinni þennan leik. Innst inni tel ég þó að stuðningsmennirnir, leikmennirnir og stjórinn lifi í voninni um að Liverpool ráði ekki við pressuna," sagði Rush.

„Enginn úrslitaleikur er auðveldur. Liverpool er mun sigurstranglegra í þessum leik en þeir gæti orðið fyrir áfalli ef þeir mæta ekki rétt stilltir inn í leikinn. Cardiff getur unnið öll lið á góðum degi og það sem gerir úrslitaleiki svo skemmtilega er að þá geta allir unnið alla," sagði Rush en hann er markahæsti leikmaðurinn í sögu deildabikarsins ásamt Sir Geoff Hurst. Báðir skoruðu þeir 49 mörk í keppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×