Enski boltinn

Lee Dixon: Mikilvægasti Arsenal-Tottenham leikur í stjóratíð Wenger

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lee Dixon í leik með Arsenal á móti Tottenham.
Lee Dixon í leik með Arsenal á móti Tottenham. Mynd/Nordic Photos/Getty
Lee Dixon, fyrrum bakvörður Arsenal, segir að nágrannaslagur Arsenal og Tottenham í ensku úrvalsdeildinni um helgina skipti öllu máli fyrir Arsene Wenger, stjóra Arsenal, og framtíð hans á Emirates.

„Þetta er mikilvægasti derby-leikurinn í sextán ára stjóratíð Arsene Wenger hjá Arsenal og hann kemur á mjög beiskum tíma í sögu félagsins," sagði Lee Dixon í viðtali við BBC.

Tottenham hefur aldrei endað ofar en Arsenal síðan að Wenger tók við árið 1996 en vinni Spurs leikinn á sunnudaginn þá verða strákarnir hans Harry Redknapp með þrettán stiga forskot á Arsenal þegar aðeins tólf leikir eru eftir.

Arsenal hefur aðeins unnið einn af síðustu sjö leikjum sínum við Tottenham en þetta er aðeins í fjórða sinn í 32 innbyrðisleikjum liðanna síðan að Wenger tók við sem Arsenal er neðar í töflunni.

„Það er enginn stærri leikur á þessum tímapunkti en Norður-London derby-leikurinn enda er svo mikið undir. Ég held að við getum búist við mikilli skemmtun á sunnudaginn," sagði Dixon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×