Innlent

Allt í hnút í Kópavogi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðríður Arnardóttir er oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi og formaður bæjarráðs.
Guðríður Arnardóttir er oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi og formaður bæjarráðs.
Það er allt í hnút í bæjarstjórn Kópavogs eftir að meirihlutaviðræður Samfylkingarinnar við Sjálfstæðismenn slitnuðu í dag. Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar, segist hafa átt samtal við oddvita Kópavogslistans eftir að ljóst varð í dag að viðræður við sjálfstæðismen myndu ekki skila árangri. Hún bíði nú eftir viðbrögðum frá Kópavogslistanum.

„Nú verða menn bara að axla ábyrgð ogg setjast niður og mynda starfhæfan meirihluta," segir Guðríður. „Þó það sé búið að ganga ýmisleg á hérna þá hljóta menn að geta sest niður og talað saman eins og fólk og hugað að málefnum en ekki fortíðardraugum," bætir hún við.

Guðríður segir augljóst að ekki hafi verið einhugur um það hjá sjálfstæðismönnum að ganga til meirihlutasamstarfs. „Þetta er orðin furðuleg staða en ekki stendur á Samfylkingunni. Samfylkingin og vinstri græn líta svo á að við höfum staðið þessa vakt og við væntum þess að einhverjir séu tilbúnir til þess að hefja hér viðræður um samstarf á málefnalegum forsendum þar sem Kópavogsbúar og þeirra hagsmunir eru settir í forgrunn," segir Guðríður.

Guðríður segir menn ekki geta beðið lengi með að mynda starfhæfan meirihluta. Nú séu liðnar tvær vikur án þess að meirihluti hafi verið starfandi í bæjarstjórninni. Þótt daglegur rekstur gangi ágætlega sé alveg víst að ekki sé hægt að taka stórar pólitískar ákvarðanir við þessar aðstæður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×