Sport

Helga Margrét með besta árangurinn á Norðurlöndum í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helga Margrét Þorsteinsdóttir á mótinu i dag.
Helga Margrét Þorsteinsdóttir á mótinu i dag. Mynd/Hans Uurike
Helga Margrét Þorsteinsdóttir sjöþrautarkona úr Ármanni setti í dag nýtt og glæsilegt Íslandsmet í fimmtarþraut þegar hún fékk 4298 stig á alþjóðlegu móti í Tallinn í Eistlandi. Helga Margrét bætti sitt eigið Íslandsmet um 93 strig.

Helga Margrét endaði í öðru sætinu á mótinu á eftir lettneskri stelpu en hún bar hinsvegar sigurorð af Idu Marcussen frá Noregi sem fékk 4.256 stig en á best 4.283 stig í fimmtraþraut.

Árangur Helgu í dag er besti árangur á Norðurlöndum á þessu ári og jafnframt ellefti besti árangur ársins. Hún endaði daginn á frábæru 800 metra hlaupi eftir að hafa byrjað illa í 60 metra grindarhlaupi.

„Það sem er áhugavert við þetta er að Helga er að bæta Íslandsmetið í greininni þrátt fyrir tvær slæmar greinar í dag, 60 metra grindahlaup og langstökk. Hástökkið og kúlan voru fín og 800 metra hlaupið var mjög gott. Það er því hægt að búast við mun meiru fljótlega í næstu þraut hjá Helgu ef hún nær að sýna jafnari árangur í greinunum," segir Vésteinn Hafsteinsson í fréttatilkynningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×