Innlent

Leið Hagsmunasamtaka heimilanna óraunhæf að mati ráðherra

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Forsætisráðherra segir skýrslu Hagfræðistofnunar sýna að tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna um almenna lækkun allra íbúðaskulda séu því miður ekki raunhæfar. Hins vegar sé unnið að málefnum þeirra sem fengu svokölluð lánsveð. Þá sé verið að skoða afnám verðtryggingar í áföngum.

Samkvæmt tölum frá Samtökum fjármálafyrirtækja hafa íbúðalán þegar verið færð niður um 144 milljarða króna vegna 110% leiðar, sértækrar skuldaaðlögunar og endurreiknings gengislána.

Í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ segir að ef leið Hagsmunasamtaka heimilanna um 18,7 prósenta lækkun höfuðstóls íbúðalána verði farin muni það kosta 200 milljarða króna og að langstærstur hluti kostnaðarins lendi á skattgreiðendum.

Jafngildir niðurskurði ríkisins á þremur árum

Sýnir þetta ekki, svo ekki verður um villst að þessar tillögur eru óraunhæfar? „Því miður held ég að svo sé. Við erum að tala um, eins og þú segir, um 200 milljarða króna og 140 milljarðar myndu lenda á Íbúðalánasjóði, eða með öðrum orðum ríkinu. Og síðan á bönkunum að hluta og 35-40 milljarðar á lífeyrissjóðunum. Þetta þýðir að skattgreiðendur og lífeyrisþegar þurfa að bera þetta ef út í það yrði farið. Síðan erum við að ræða um sambærilega upphæð og við höfum farið í gegnum í niðurskurði, til að ná niður halla á ríkissjóði, á þremur árum. Sem hefur nú kostað blóð, svita og tár. Þannig að við erum að tala um verulegar fjárhæðir," segir Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.

Einsdæmi í heiminum

Erlendis hefur verið gripið til ýmissa ráða til þess að létta vanda skuldugra íbúðaeigenda eftir að skuldakreppan skall á. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Hagfræðistofnun hefur undir höndum verður ekki séð að höfuðstóll allra húsnæðislána hafi nokkurs staðar í heiminum verið færður niður með þeim hætti sem Hagsmunasamtök heimillanna fara fram á.

Forsætisráðherra segir að á dagskránni sé að skoða leiðir sem miði að því að taka á málum þeirra sem eru með lánsveð. „Síðan finnst mér að við þurfum að skoða hvernig hægt er að ná niður verðtryggingunni, afnema hana í áföngum og að um það geti náðst samstaða," segir forsætisráðherra og bætir við að verið sé að skoða leiðir til að koma til móts við þá sem keyptu sínar fyrstu íbúðir á árunum 2005-2008 með einhverjum úrræðum í gegnum skattkerfið. „Annað held ég að því miður sé ekki raunhæft." thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×