Innlent

Leonard-þjófur dæmdur

Ránið náðist á öryggismyndavélar og voru mennirnir handteknir daginn eftir. Það tók þá aðeins 15 sekúndur að ná úrunum úr versluninni.
Ránið náðist á öryggismyndavélar og voru mennirnir handteknir daginn eftir. Það tók þá aðeins 15 sekúndur að ná úrunum úr versluninni. Mynd/Öryggismyndavél í Leonard
Karlmaður á átjánda aldursári var dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi í þrjú ár í Héraðsdómi Reykjaness í dag.

Pilturinn var meðal annars dæmdur fyrir að hafa hafa farið inn í Leonard, úraverslun í Kringlunni, í félagi við annan mann, í desember árið 2010 og spennt þar upp læstan glerskáp með kúbeini og tekið úr honum sex armbandsúr að verðmæti rúmlega 4,6 milljóna króna. Mennirnir tveir komust burt á hlaupum en voru handteknir daginn eftir.

Þá var pilturinn einnig dæmdur fyrir að aka bifreið án ökuréttinda og fyrir að hafa framvísað ökuskírteini sem annar maður átti. Þá sparkaði hann í stúlku fyrir utan söluskála þannig að hún datt fram fyrir sig og sló hana í andlitið þegar hún stóð upp eftir fallið. Þá reyndi hann að slá mann fyrir utan lögreglustöð en hitti ekki í manninn og sló lögreglumann í staðinn.

Í niðurstöðu dómara segir að pilturinn hafi tekið sig á og breytingar hafi orðið í lífi hans. Hann stundi nú nám og íþróttir og því þykir hæfilegt að skilorðsbinda refsingu piltsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×