Innlent

Braust inn á lögheimili sitt

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Fertugur heimilislaus maður hefur tvisvar í vikunni brotist inn í Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu. Hann var þangað til í dag með skráð lögheimili í bústaðnum.

Það er kyndugt en staðreyndin er sú að hver sem er getur skráð lögheimili sitt hvar sem er, svo lengi sem það er í íbúðarhúsnæði. En maðurinn fór á Þorláksmessu og skráði sig til heimilis í Ráðherrabústaðnum, á þriðjudagskvöldið mætti hann svo niður í Tjarnargötu, braut rúðu þar í aðaldyrum hússins og gekk inn til að flytja inn á sitt nýja heimili.

Maðurinn álítur að ríkið skuldi honum peninga - og er með þessu athæfi að vekja athygli á því en hann hefur gert kröfu á hendur ríkisins upp á 14,7 milljónir evra, sem jafngildir röskum tveimur milljörðum króna. Hann er í raun heimilislaus og telur að yfirvöld hafi með óréttmætum hætti tekið búslóð sína eignarnámi. En hann var að sjálfsögðu handtekinn á staðnum, gisti fangageymslu um nóttina og sleppt í gær, að sögn lögreglu. Þá fór hann rakleiðis aftur niður í Ráðherrabústað, braut rúðu í bakhurð um fimmleytið í gær en þegar við vorum á ferð þar síðdegis voru menn að leggja lokahönd á viðgerðina. Maðurinn náði að athafna sig í nokkra stund í bústaðnum í gær, þvoði sér hátt og lágt í eldhúsvaskinum og mun hafa verið í þann mund að gæða sér á freyðivíni þegar lögreglan handtók hann. Hann má búast við ákæru vegna innbrotanna og bótakröfu vegna skemmda.

Samkvæmt heimildum fréttastofu var skráningu manns breytt í dag þegar Þjóðskrá frétti hvernig í pottinn var búið og hann er því ekki lengur með skráð lögheimili í fundar- og móttökusölum stjórnvalda í Ráðherrabústaðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×