Innlent

Kolgalið að hafa nýja spítalann við Hringbraut

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Það er kolgalið að staðsetja nýja Landspítalann við Hringbraut, segir Guðjón Baldursson sjálfstætt starfandi læknir, og telur það verstu hugsanlegu framtíðarstaðsetningu fyrir starfsfólk og sjúklinga. Hann segir ekki of seint í rassinn gripið að velja honum nýjan stað og skorar á stjórnendur spítalans að endurskoða málið.

Háværar umræður voru um staðsetningu á nýjum Landspítala á sínum tíma - en lítið hefur farið fyrir þeim undanfarin ár enda fastákveðið að byggja við Hringbraut, búið að kynna drög að deiliskipulagi og planið að hefjast handa næsta vor. Guðjón starfaði á spítalanum í aldarfjórðung og segir að þótt undirbúningur hafi staðið yfir í um áratug og miklu fé verið til kostað þá sé þessi bygging af slíkri stærðargráðu, einhvers stærsta uppbygging Íslandssögunnar, að hugsa verði hana til áratuga.

Samkvæmt hagkvæmniathugun norskra fyrirtækja sem kynnt var í október var niðurstaðan sú að hagkvæmast væri að byggja nýja spítalann við Hringbraut. Guðjón segir það hins vegar kolgalið að byggja upp við Hringbraut.

Meðal annars vegna þess að spár geri ráð fyrir að miðja borgarinnar muni færast og verða nær Reynisvatni, Rauðavatni eða Keldum á næstu áratugum - og þá verði Hringbrautin í jaðri byggðar. Umferðaraðgengi að spítalanum sé mjög slæmt nú þegar - hvað þá þegar hann stækki. Staðsetningin gæti eiginlega ekki verið verri. „Það sem ræður verkefnum í íslensku samfélagi eru peningar og pólitík," segir Guðjón og skorar á stjórnendur spítalans að viðurkenna mistök við val á staðsetningu og endurskoða málið frá grunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×