Innlent

Fær ekki að læra á trommur í Hveragerði

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Jóhanna Rut Ingvarsdóttir, 25 ára Hvergerðingur er mjög ósátt við að Hveragerðisbær vilji ekki taka þátt í kostnaði við nám hennar á trommum við Tónlistarskóla Árnesinga. Jóhanna hefur spilað á trommur í þrjú ár en ætlaði sér í nám hjá Stefáni Þórhallssyni, trommara, sem er búsettur í Hveragerði.

Á fundi bæjarráðs Hveragerðisbæjar 18. ágúst 2011 ákvað bæjarstjórn Hveragerðisbæjar að greiða ekki fyrir hljóðfæranám nemenda á grunn- og miðstigi  sem orðnir eru 20 ára. Á sama fundi var aftur á móti ákveðið að bæjarsjóður myndi greiða fyrir nemendur 20 ára og eldri sem stunda nám á grunnstigi í söng.  Þessi samþykkt var gerð í kjölfar samkomulags ríkis og sveitarfélaga þar sem ríkissjóður samþykkt að greiða framhaldsnám í hljóðfæranámi og mið- og framhaldsnám nemenda í söng.

„ Ástæða ákvörðunar Hveragerðisbæjar var sú að flestir nemendur sem hefja tónlistarnám á unga aldri hafa lokið grunn og miðstigi vel fyrir  tvítugt. Alltaf er eitthvað um það að fullorðnir einstaklingar stundi  tónlistarnám en bæjarstjórn er á þeirri skoðun að það nám eigi ekki að greiðast úr sameiginlegum sjóðum heldur af einstaklingunum sjálfum rétt eins og annað nám sem fólk á þessum aldri stundar.  Má þar til dæmis nefna flugnám, snyrtiskóla, flugstjórnarnám og fleira sem allt er mjög kostnaðarsamt fyrir viðkomandi án þess að slíkt sé greitt úr sveitarsjóðum," sagði Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í samtali við Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×