Innlent

Flugslysaæfing í Vestmannaeyjum

Gísli Óskarsson skrifar
Stór flugslysaæfing var haldin við Vestmannaeyjaflugvöll í dag. Nálægt 200 manns komu að björgunarstörfum.

Önnur vélin lenti í sjónum, en hin á landi og braust þegar út mikill eldur í vélinni sem lenti á landi. Slökkvibíll flugvallarins var fyrstur á vettvang og hóf þegar í stað að sprauta slökkviefni yfir bálið.

Í kjölfarið kom slökkvilið, lögregla og björgunarsveitir sem tóku til óspilltra málanna að bjarga fólki. Hér var æft samkvæmt flugslysaáætlun fyrir Vestmannaeyja-flugvöll, en hver einstakur flugvöllur landsins hefur sérstaka flugslysaáætlun en markmið allra áætlananna er eitt.

„Við erum alltaf að æfa það sama. Við erum að æfa að kalla alla þessa viðbragðsaðila saman, slökkvilið, björgunarsveitir, sjúkrahús, rauða krossinn og alla. Kalla þá saman til þess að bregðast við slysi og númer eitt, tvö og þrjú að vinna saman að svona stóru verkefni," segir Bjarni Sighvatsson, verkefnastjóri hjá Isavia.

Flugslysaæfingar lík þessari hafa verið haldnar fjórða hvert ár í Vestmannaeyjum. Sú þjálfun og samhæfing sem felst í svona æfingu er ómetanleg að mati þátttakenda, en lokamarkmið æfinganna er einfalt.

„Tilgangurinn með öllu þessu brölti er bara einn. Að auka öryggi flugfarþega," segir Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×