Íslenski boltinn

Kolbeinn með mark á 48 mínútna fresti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frábær framherji. Kolbeinn Sigþórsson átti flottan leik á móti Færeyjum og sýndi styrk sinn í teignum með því að skora tvö flott mörk. Fréttablaðið/anton
Frábær framherji. Kolbeinn Sigþórsson átti flottan leik á móti Færeyjum og sýndi styrk sinn í teignum með því að skora tvö flott mörk. Fréttablaðið/anton
Kolbeinn Sigþórsson er nálægt því að jafna met Péturs Péturssonar sem skoraði í fimm landsleikjum í röð. Kolbeinn er búinn að skora fjögur mörk í fyrstu þremur leikjum sínum undir stjórn Lars Lagerbäck.

Kolbeinn Sigþórsson var enn á ný á skotskónum með íslenska landsliðinu á Laugardalsvellinum á miðvikudagskvöldið. Þessi 22 ára strákur er búinn að skora 8 mörk í fyrstu 11 landsleikjum sínum og miðað við afgreiðslur hans í síðustu landsleikjum þá er von á miklu fleiri mörkum á næstu árum.

Það eru liðin sextíu ár síðan framherji byrjaði landsliðsferil sinn með jafnmiklum látum og sá hinn sami, goðsögnin Ríkharður Jónsson, átti markamet landsliðsins í 59 ár.

Kolbeinn finnur sig greinilega afar vel í leikkerfi Lars Lagerbäck sem veðjaði strax á hann sem aðalframherja íslenska landsliðsins. Mörkin hans tvö á móti Færeyjum voru augnakonfekt; blanda af útsjónarsemi og heimsklassa afgreiðslum.

Frábærir hæfileikar í teignum„Kolbeinn er búinn að skora fjögur mörk í fjórum hálfleikjum og hann hefur frábæra hæfileika í vítateignum. Hann gerði frábærlega í fyrra markinu og seinna markið kom eftir góða fyrirgjöf. Hann er frábær," sagði Lars Lagerbäck um Kolbein eftir Færeyjaleikinn.

Það er full ástæða fyrir landsliðsþjálfarann að hrósa framherjanum sínum sem hefur skorað 4 mörk á aðeins 193 mínútum síðan Svíinn tók við eða mark á 48 mínútna fresti.

Kolbeinn lenti í erfiðum meiðslum á síðasta tímabili og auk þess að missa af stærstum hluta tímabilsins með Ajax þá var hann ekki með í tveimur fyrstu leikjunum undir stjórn Lars Lagerbäck.

Setti hann strax í byrjunarliðiðKolbeinn skoraði sigurmarkið á móti Kýpur á Laugardalsvellinum 6. september í fyrra en vegna meiðslanna liðu átta mánuðir þar til að hann klæddist landsliðstreyjunni á ný. Kolbeinn var í byrjunarliði Lagerbäck á móti Frökkum 27. maí síðastliðinn og var búinn að skora eftir aðeins 34 mínútur.

Lagerbäck vildi passa upp á hann og skipti honum út af í hálfleik til að spara hann fyrir Svíaleikinn þremur dögum síðar.

Kolbeinn mætti ferskur til leiks í Svíaleikinn og skoraði laglegt skallamark á 26. mínútu. Hann fékk 58 mínútur að þessu sinni og þurfti að bíða þar til í fyrrakvöld til þess að klára heilan leik undir stjórn Lars Lagerbäck. Það skilaði sér því seinna mark Kolbeins kom á lokamínútu Færeyja-leiksins.

Kolbeinn hefur nú skorað í fjórum landsleikjum í röð og er farinn að ógna meti sem var sett aðeins 25 dögum eftir að Kolbeinn kom í heiminn snemma árs 1990. Pétur Pétursson á metið yfir mörk í flestum landsleikjum í röð en Pétur skoraði í fimm leikjum sínum í röð á árunum 1987 til 1990.

Afdrifarík brúkaupsferðPétur skoraði í 2-1 sigri á Norðmönnum í september 1987 en ósætti við landsliðsþjálfarann Sigfried Held urðu til þess að hann spilaði ekki oftar fyrir Þjóðverjann. Pétur gaf ekki kost á sér í síðustu leikjum ársins 1987 vegna brúðkaupsferðar en Held var ósáttur og setti hann í bann.

Næsti landsleikur Péturs var því ekki fyrr en tveimur árum seinna þegar Guðni Kjartansson tók tímabundið við liðinu fyrir leik á móti Tyrkjum. Guðni setti Pétur beint inn í byrjunarliðið og Pétur svaraði kallinu með því að skora tvö mörk í frábærum 2-1 sigri.

Pétur var áfram sjóðheitur í fyrstu leikjum liðsins undir stjórn Svíans Bo Johansson og skoraði í þremur fyrstu leikjum ársins 1990. Pétur var því búinn að skora í fimm landsleikjum í röð á 30 mánuðum en tókst ekki að skora í leik á móti Albaníu í lok maí 1990.

Eiður Smári Guðjohnsen er markahæsti landsliðsmaðurinn frá upphafi og hefur enn sextán mörk í forskot á Kolbein.

Eiður Smári þarf þó líklega að bæta við mörkum á lokaspretti síns landsliðsferils ætli hann ekki að missa markametið til Kolbeins þegar fram líða stundir. Til að byrja með verður spennandi að sjá hvort að Kolbeini takist að jafna met Péturs þegar Norðmenn koma í heimsókn.

Kolbeinn Sigþórsson er sá fljótasti í sögunni til þess að skora sitt áttunda mark fyrir íslenska A-landsliðið.

Þegar skot Kolbeins þandi marknetið á lokamínútunni í sigrinum á Færeyjum var hann aðeins búinn að spila í 740 mínútur í landsliðsbúningnum en kominn með átta mörk í 11 leikjum.

Kolbeinn gerði þar betur en Ríkharður Jónsson sem skoraði sitt áttunda A-landsliðsmark eftir 780 mínútur. Kolbeinn var því 40 mínútum fljótari en Ríkharður upp í átta A-landsliðsmörk en Ríkharður náði því reyndar í sínum tíunda A-landsleik.

Kolbeinn var líka að skora í sínum sjöunda landsleik á miðvikudagskvöldið en Ríkharður skoraði „bara“ í fjórum af fyrstu ellefu landsleikjum sínum.

Kolbeinn Sigþórsson er búinn að skora í öllum þremur leikjum sínum fyrir Lars Lagerbäck og alls í fjórum landsleikjum í röð.

Ísland–Kýpur 1-0, Laugardalsvöllur 6. september 2011

Skoraði á 4. mínútu

Frakkland–Ísland 3-2, Valenciennes, 27. maí 2012

Skoraði á 34. mínútu

Svíþjóð–Ísland 3-2, Gautaborg, 30. maí 2012

Skoraði á 26. mínútu

Ísland–Færeyjar 2-0, Laugardalsvöllur 15. ágúst 2012

Skoraði tvö mörk, á 30. og 90. mínútu

Metið hans Péturs

Pétur Pétursson skoraði í fimm landsleikjum í röð á árunum 1987 til 1990. Hann var ekki valinn í landsliðið í sextán leikjum frá 1987 til 1989.

Ísland-Noregur 2-1, Laugardalsvöllur 9. september 1987

Skoraði á 21. mínútu

Ísland-Tyrkland 2-1, Laugardalsvöllur 20. september 1989

Skoraði tvö mörk, á 52. og 69. mínútu

Lúxemborg-Ísland 1-2, Esch 28. mars 1990

Skoraði á 16. mínútu

Bermúda-Ísland 0-4, Hamilton 3. apríl 1990

Skoraði tvö mörk, á 4. og 88. mín. (víti)

Bandaríkin-Ísland 4-1, St. Louis 8. apríl 1990

Skoraði á 85. mínútu (víti)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×