Innlent

Forval vegna Norðfjarðarganga kynnt

Norðfjarðargöng.
Norðfjarðargöng. mynd/Vegagerð
Vegagerðin birti kvöld forval til verktaka vegna Norðfjarðarganga. Þar kemur fram að göngin verði sjö og hálfur kílómetri en gert er ráð fyrir að um 420 þúsund rúmmetrar af sprengdu bergi muni falla til við jarðgangagerðina.

Tvær brýr verða reistar vegna ganganna. Önnur verður yfir Eskifjarðará og verður hún 38 metrar, hin yfir Norðfjarðará og er áætlað að hún verði 48 metrar.

Þá er gert ráð fyrir að þrjú þúsund rúmmetrar af steypu verði notuð við gerð Norðfjarðarganga. Fylling þeirra nemur 650 þúsund rúmmetrum.

„Markmið framkvæmdarinnar er að styrkja byggðarlög á Austurlandi með bættu vegasambandi á milli þéttbýlisstaða," segir í fréttabréfi Vegargerðarinnar.

Verktakar skuli skila forvalsgögnum fyrir 13. nóvember. Vinna við göngin eiga að hefjast á næsta ári og mun vinna við þau taka þrjú til fjögur ár.

Nýr vegur verður með bundnu slitlagi og utan jarðganga verður hann uppbyggður með tilliti til snjóa. Hönnunarhraði vegarins verður miðaður við 70 kílómetra hraða í jarðgöngunum en utan þeirra verður hámarkshraði 90 kílómetra hraði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×