Innlent

Veggjakrot vaxandi vandamál

Veggjakrot kostaði Reykjavíkurborg á fimmta tug milljóna á síðasta ári. Gert er ráð fyrir að kostnaðurinn í ár verði 26 milljónir.

Í vikunni voru fjórir 19 ára piltar gripnir við veggjakrot á vegg fyrirtækis í Örfirisey, en þá lagði lögregla hald á 46 úðabrúsa sem drengirnir höfðu undir höndum.

Ef miðað er við tölur frá lögreglunni virðist veggjakrot vera vaxandi vandamál, en í júní síðastliðnum bárust lögreglunni níu tilkynningar um veggjakrot, sem var helmingsaukning frá síðasta ári. 15 tilkynningar höfðu svo borist fyrri hluta júlímánaðar, sem var svipuð aukning frá árinu áður.

En veggjakrotið er dýrt spaug. Kostnaður Reykjavíkurborgar af veggjakroti á síðasta ári nam 44 milljónum, meðal annars vegna sérstakra átaksverkefna. Í ár er kostnaðurinn áætlaður 26 milljónir, en borgin hreinsar eingöngu ýmsar fasteignir, leiktæki og annað slíkt í eigu borgarinnar, auk ýmissa mannvirkja í alfaraleið. Það er því ljóst að þegar kostnaður annarra opinberra stofnana, fyrirtækja og einstaklinga er talinn saman gæti tjónið af völdum veggjakrots verið margfalt á við kostnað borgarinnar einnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×