Kántríhljómsveitin Lady Antebellum kom, sá og sigraði á 53. Grammy-verðlaunahátíðinni í Los Angeles.
Kántrítríóið Lady Antebellum og poppstjarnan Lady Gaga voru atkvæðamest á Grammy-hátíðinni sem var haldin í Los Angeles. Lady Antebellum hlaut fimm verðlaun, þar á meðal tvenn fyrir lagið Need You Now. Hljómsveitin var stofnuð árið 2006 og hefur síðan þá náð fjórum lögum á topp kántrílista Billboard.
Hér fyrir ofan má sjá myndbandið við lag ársins, Need You Now.

Lady Gaga, sem var borin til athafnarinnar í risavöxnu eggi, hlaut þrenn verðlaun, rétt eins og rapparinn Jay-Z og sálarsöngvarinn John Legend. Jay-Z var heiðraður í tvígang fyrir lagið Empire State of Mind, sem hann söng með Aliciu Keys við miklar vinsældir.
Rapparinn Eminem var tilnefndur til tíu verðlauna en hlaut aðeins tvenn, fyrir bestu rappplötuna (Recovery) og fyrir lagið Not Afraid.

Þá hlaut gamla kempan Neil Young verðlaun fyrir rokklag ársins og voru það fyrstu Grammy-verðlaun hans á löngum ferli.
