Innlent

Oddfellowar gefa fullbúna líknardeild

Oddfellow-menn munu á næstu vikum og mánuðum taka til óspilltra málanna og fullbúa á eigin reikning þriðju deildina við líknardeild Landspítalans í Kópavogi. Fréttablaðið/Heiða
Oddfellow-menn munu á næstu vikum og mánuðum taka til óspilltra málanna og fullbúa á eigin reikning þriðju deildina við líknardeild Landspítalans í Kópavogi. Fréttablaðið/Heiða
Oddfellow-reglan mun annast innréttingar og tækjabúnað í nýrri álmu við líknardeild Landspítalans í Kópavogi.

Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, segir Oddfellow áður hafa skilað sams konar verki þegar líknardeildin í Kópavogi var stofnuð 1998 og síðan aftur um miðjan síðasta áratug þegar bætt var við dagdeild og fimm daga deild. Segja megi að Oddfellow hafi verið með deildina í Kópavogi í fóstri.

„Það má segja að þetta sé síðasti þriðjungurinn,“ segir Björn um verkefnið sem nú liggur fyrir hjá Oddfellow-mönnum. Loka á líknardeild Landspítalans á Landakoti með níu plássum og koma fimm plássum fyrir í staðinn í álmu sem nú stendur tóm í Kópavogi. Sjúkrarúmunum í heild fækkar því um fjögur og verða alls þrettán.

Björn segir Oddfellow innrétta tómu álmuna og búa hana tækjum. „Þeir brjóta niður veggi og setja upp aðra, annast iðnaðarstörf og kaupa tæki og gefa fé. Þetta er eins og þeir hafa áður gert; að sjá alveg um að taka fokhelt húsnæði og skila því fullbúnu,“ segir hann.

Björn vonast til að framkvæmdir hefjist fljótlega og að hægt verði að opna nýju álmuna í febrúar. Gróflega megi meta framlag Oddfellow-reglunnar að þessu sinni til um áttatíu milljóna króna. „Það er frábært sem Oddfellow-menn hafa gert. Þeir hafa bara ekki talað um það; það er þannig sem þeir vinna,“ segir Björn um velgjörðarmenn líknardeildarinnar í Kópavogi.

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×