Innlent

Móðirin vöruð við níðingnum

Móðir drengs, sem þurfti að þola gróft kynferðisofbeldi í áraraðir, var vöruð sterklega við að láta drenginn í hendur brotamannsins fyrir níu árum. Við húsleit hjá manninum, sem var dæmdur barnaníðingur, fundust þá kynferðislegar myndir af börnum og jafnframt myndir af drengnum í fangi hans.

Þetta kemur fram í dómnum yfir manninum, sem dæmdur var í sex og hálfs árs fangelsi á fimmtudag. Þar var hann fundinn sekur um að hafa misnotað drenginn gróflega frá því að hann var tíu ára til fjórtán ára aldurs. Brotin stóðu allt þar til á þessu ári.

Maðurinn hefur hlotið nokkra dóma fyrir kynferðisbrot. Hann gekkst fyrst undir sektargreiðslu fyrir vörslu kynferðislegra mynda af börnum 1998, hlaut eins árs fangelsisdóm í Hæstarétti 2001 fyrir að misnota tvo drengi, tólf og þrettán ára, og hlaut á árunum 2002 og 2007 dóma fyrir að hafa kynferðislegt myndefni af börnum í sinni vörslu.

Vegna málsins sem kom upp 2002 var gerð húsleit hjá manninum og fundust þá myndir af honum með drenginn í fanginu. Sá var frændi sambýlismanns hans. Þetta varð lögreglu tilefni til að vara móðurina við því „að láta hann aldrei í hendurnar á þessum mönnum eftirlitslausan“, að því er segir í dómnum.

Móðirin hélt hins vegar áfram að senda drenginn reglulega á heimili mannanna og eftirfylgni af hálfu yfirvalda var engin. Björgvin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að lögreglumanninn sem rannsakaði málið reki ekki minni til að málið hafi verið tilkynnt barnaverndaryfirvöldum. Líklega hafi svo ekki verið. „Í þessu tilviki var líklega látið duga að upplýsa móður drengsins um áhyggjur lögreglu, enda drengurinn ekki inni í rannsókn málsins að neinu leyti,“ segir Björgvin.

Með hliðsjón af því sem síðar kom í ljós segir Björgvin þó að hugsanlega hefði mátt setja barnaverndaryfirvöld inn í málið, og það kunni að gefa tilefni til að fara yfir verklag í málum sem þessum. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×