Innlent

Landssöfnun til styrktar geðdeildum

Vigdís og Páll máta brospinnana.
Vigdís og Páll máta brospinnana.
Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, tók á dögunum á móti fyrsta Brospinnanum úr hendi Páls Matthíassonar, framkvæmdastjóra geðsviðs Landspítalans.

Um helgina verður landssöfnun sem skipulögð er starfsfólki Landspítalans en sölu á Brospinnum er ætlað að bæta aðbúnað á geðdeildum spítalans. Salan fer fram dagana 7. til 10. október næstkomandi. Vigdís er verndari landssöfnunarinnar.

„Forsagan er ótrúleg sem og framvindan,“ segir í tilkynningu frá forsvarsmönnum átaksins. „Fyrir rúmu ári var starfsmaður á geðdeild að reyna létta lund mikið veiks sjúklings. Starfsmaðurinn teiknaði, klippti og límdi broskarl á tunguspaða sem hann notaði sem pinna og skildi eftir á náttborði sjúklingsins. Þannig kviknaði hugmyndin að Brospinnanum og stofnað var félagið  Brospinnar - Áhugahópur um bættan aðbúnað á geðdeildum Landspítalans.“

Þá segir að geðraskanir tengist einni af hverjum þremur fjölskyldum á Íslandi. „Geðraskanir geta verið erfiðir sjúkdómar og margir þurfa að leggjast inn á geðdeildir Landspítalans vegna þeirra og fá þar þjónustu til lengri eða skemmri tíma.  Þjónusta starfsfólksins er  góð en aðbúnaðurinn hefur því miður ekki verið endurnýjaður sem skyldi og ljóst að svo mun ekki verða í náinni framtíð, miðað við fjárhag ríkisins. Geðdeildir Landsspítalans eru   orðnar áratuga gamlar og nauðsynlegt að endurnýja bæði innréttingar og húsbúnað.“

Fjórar tegundir Brospinna verða í sölu, konubros, karlabros, strákabros og stelpubros en hvert bros kostar aðeins 1000 kr. og allur ágóði fer í að bæta aðbúnað á þeim  níu legudeildum sem heyra undir geðsvið Landspítalans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×