Íslenski boltinn

Geir: Það hvílir leynd yfir þessu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Geir er þögull sem gröfin.
Geir er þögull sem gröfin. Fréttablaðið/Anton
Það hefur lítið heyrst frá KSÍ vegna yfirvofandi ráðningar á nýjum landsliðsþjálfara en Ólafur Jóhannesson stýrir brátt sínum síðasta leik.

Fjölmörg nöfn hafa verið í loftinu síðustu daga en Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, fæst ekki til þess að gefa nokkurn skapaðan hlut upp um gang mála.

„Það er ekkert að frétta. Ekkert sem ég get sagt frá. Það hvílir leynd yfir þessu,“ sagði Geir við Fréttablaðið í gær.

„Ég get ekkert staðfest varðandi viðræður eða annað. Við erum að virða trúnað og munum því ekkert tjá okkur um gang mála. Við höfum ekki sett okkur neinn sérstakan tímaramma í þessu máli en tíminn er núna.“

Ekki liggur enn fyrir hvort KSÍ er alvara með því að ráða erlendan þjálfara eins og meðal annars aðildarfélögin hafa kallað eftir.

Þar hafa verið nefnd nöfn manna eins Lars Lagerbäck, Steve Coppell, Stuart Baxter og George Burley.

Lagerbäck og Coppell hafa báðir lýst yfir áhuga sínum á landsliðsþjálfarastarfinu. Hinn sænski Lagerbäck var svo í viðræðum við Austurríkismenn en í gær varð ljóst að austurríska sambandið ætlar ekki að ráða hann sem landsliðsþjálfara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×