Innlent

Ferðaþjónustan hefur miklar áhyggjur af þróun mála

Vinnustöðvun flugvirkja tafði brottfarir níu flugvéla Icelandair í morgun. Samskonar aðgerðir eru boðaðar í fyrramálið og verkfall vofir yfir síðar í mánuðinum. Ferðaþjónustan hefur miklar áhyggjur af þróun mála.

Vinnustöðvun flugvirkja hófst klukkan sex í morgun og stóð yfir til tíu. Það var því mikil örtröð á Keflavíkurflugvelli þegar hún fór að ganga ellefu og níu fullbókaðar flugvélar sem höfðu beðið fram eftir morgni gátu loks tekið á loft. Aðgerðin olli tveggja til þriggja tíma seinkunum fram eftir degi. Samskonar aðgerðir eru boðaðar á morgun og hinn.

„Við eigum von á svipuðu á morgun, það gætu orðið meiri seinkanir á morgun og hinn ef fram sem horfir," segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.

Viðræður flugvirkja við Icelandair eru í algjörum hnút eftir ríkissáttasemjari sleit samningafundi í gær. Icelandair hefur boðið sambærilegar launahækkanir og aðrir atvinnurekendur en það dugar ekki til. Verkfall vofir því yfir þann 20. júní. Samtökum ferðaþjónustunnar líst ekki á stöðuna.

„Við teljum hana vera mjög alvarlega, svona verkföll fréttast og hafa áhrif strax og hafa áhrif á ferðaþjónustuna á Íslandi alveg um leið," segir Árni Gunnarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

Erlendir bókunaraðilar hafa áhyggjur af stöðunni og þeim líst illa á að bóka hópa í ferðir hingað til lands sem eiga svo hættu á því að verða hér strandaglópar.

Árni segir þetta grafalvarlegt því hafi verið bundnar við gott ferðamannasumar. „Svona aðgerðir geta eyðilagt," segir Árni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×