Erlent

Bar upp bónorðið í vitlaust númer

Hermenn í Afganistan.
Hermenn í Afganistan. Mynd/AFP
Díana Potts, fjörutíu og fjögurra ára húsmóðir í bænum Gateshead, fékk heldur betur skemmtilega spurningu þegar hún hlustaði á talhólfið í símanum sínum á dögunum. Breskur hermaður í Afganistan las inn skilaboð til hennar þar sem hann bað hana um að giftast sér.

Það var samt eitt vandamál. Hún þekkti engan breskan hermann í Afganistan og auk þess er hún gift þriggja barna móðir.

„Ég elska þig svo mikið, ég elska þig af öllu hjarta og ég ætlaði að spyrja þig, þú þarft ekki að svara, augljóslega geturðu það ekki, en viltu giftast mér?" Svona hljómuðu skilaboðin til Díönu þegar hún hlustaði á talhólfið í símanum sínum eftir að hún náði ekki að svara í hann einn daginn.

Díana segir við breska fjölmiðla að hún hafi áttað sig á því að hermaðurinn var að tala úr símaklefa því símtalið hafi verið mjög óskýrt. „Ég var í sjokki, og þurfti að hlusta á það aftur til að átta mig á þessu. Ég held að hann hafi slegið inn vitlaust númer og að símanúmer kærustu hans sé líkt mínu," segir Díana.

Stúlkan sem hermaðurinn ávarpaði heitir Samantha. Hann tjáði henni einnig að hann verði eflaust í Afganistan í þrjá mánuði í viðbót. Þá er kærasta hermannsins þunguð, af skilaboðum hans að dæma. „Ég get ekki beðið eftir því þegar við eignumst barnið okkar, litla hermanninn. Ég mun gera allt sem ég get til að vernda þig og barnið og elska ykkur af öllu hjarta."

Díana sendi breskum fjölmiðlum tölvupóst til að fá hjálp við að finna einhvern sem þekkir rödd hermannsins eða kærustu hans, Samönthu. „Við verðum að finna hana," segir Díana.

Samantha er ekki komin í leitirnar, en nú bara að bíða og sjá, hvort að Samantha gefi sig ekki fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×