Fótbolti

Ronaldo ætlar að leggja skóna á hilluna í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ronaldo varð heimsmeistari 2002 og varð þá líka markakóngur keppninnar. Hér kyssir hann bikarinn með Rivaldo (til vinstri).
Ronaldo varð heimsmeistari 2002 og varð þá líka markakóngur keppninnar. Hér kyssir hann bikarinn með Rivaldo (til vinstri). Mynd/Nordic Photos/Getty
Brasilískir fjölmiðlar greindu frá því í gærkvöldi að brasilíski framherjinn Ronaldo væri búinn að ákveða það að leggja knattspyrnuskóna á hilluna og myndi tilkynna það á blaðamannafundi í dag.

Ronaldo segir að þetta sé rétti tíminn til að setja punktinn á bak við 18 ára feril þar sem hann var meðal annars kostinn besti knattspyrnumaður heims þrisvar sinnum, varð heimeistari með Brasilíu 2002 og skoraði flest mörk allra í úrslitakeppni HM eða fimmtán.

„Ég get þetta ekki lengur. Ég vil halda áfram en ég get það bara ekki. Ég ætla mér kannski að framkvæma eitthvað í leik en líkaminn hlýðir ekki. Tími minn í fótboltanum er á enda," sagði Ronaldo í viðtali við Estado de Sao Paulo blaðið. Hann er 34 ára gamall en hefur verið mikið meiddur síðustu árin í boltanum.

Ronaldo hefur spilað undanfarin tvö ár með Corinthians í heimalandi sínu en hann lék síðast í Evrópu með ítalska liðinu AC Milan frá 2007 til 2008. Ronaldo skoraði alls 217 mörk í 298 deildarleikjum með PSV Eindhoven (1994-1996), Barcelona (1996-1997), Inter Milan (1997-2002), Real Madrid (2002-2007) og AC Milan (2007-2008).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×